Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 8
7
Finnur Dellsén
Hlutdrægni í vísindum
Vanákvörðun, tilleiðsluáhætta
og tilurð vísindakenninga
Í opinberri umræðu um vísindi er gjarnan gengið út frá því að við eigum
að líta upp til vísinda og taka okkur aðferðafræði þeirra til fyrirmyndar í
mörgum tilvikum. Samkvæmt þessu viðhorfi eigum við almennt séð að
treysta niðurstöðum rótgróinna vísindagreina og reiða okkur á nýjustu
vísindarannsóknir fremur en rótgrónar hefðir og viðtekin sannindi. Ýmsir
fræðimenn, sérstaklega innan hug- og félagsvísinda, telja aftur á móti að
við eigum að hafa varann á gagnvart vísindum og aðferðafræði þeirra.
Samkvæmt þessu viðhorfi eru vísindalegar kenningar ekkert áreiðanlegri
en aðrar skoðanir sem við myndum okkur reglulega, svo sem stjórnmála-
skoðanir og siðferðisdómar. Þetta eru í mjög grófum dráttum hinar stríð-
andi fylkingar í því sem stundum er kallað vísindastríðin (e. the science wars).
Eitt af því sem tekist er á um í þessum stríðum er hvort vísindin séu í ein-
hverjum skilningi hlutdræg og á valdi fordóma eins og kynjafordóma, kyn-
þáttafordóma, eða fordóma gagnvart ýmsum öðrum jaðarsettum hópum
svo sem fötluðum, samkynhneigðum eða trans fólki.
Markmið mitt í þessari grein er að varpa ljósi á hvort og hvernig hlut-
drægni og fordómar geta haft áhrif á niðurstöður vísindarannsókna. Ég
ætla að fjalla stuttlega um tvær hugmyndir sem femínísku vísindaheim-
spekingarnir Helen Longino og Heather Douglas hafa sett fram í þessum
efnum.1 Þótt hugmyndir Longino og Douglas varpi að mínu mati skýru
1 Þótt Longino og Douglas séu að sjálfsögðu ekki einar meðal (femínískra) vís-
indaheimspekinga um að gera grein fyrir hugmyndum af þessu tagi má segja að
þær hafi öðrum fremur sannfært aðra vísindaheimspekinga um gildi þess að huga
vel að mögulegum áhrifum hlutdrægni og fordóma á vísindarannsóknir. Sjá til
dæmis Julian Riess og Jan Sprenger, „Scientific Objectivity“, Stanford Encyclopedia
of Philosophy, ritstj. Edward N. Zalta, 25. ágúst 2015, sótt 31. ágúst 2016 af http://
plato.stanford.edu/archives/sum2016/entries/scientific-objectivity/, §3.1-3.3.
Ritið 3/2016, bls. 7–26