Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 9
8
ljósi á það hvernig hlutdrægni og fordómar geta haft áhrif á niðurstöður
vísindarannsókna mun ég einnig leitast við að sýna fram á að hlutdrægni
geti litað niðurstöður vísindastarfs með öðrum hætti. Í stuttu máli má segja
að ég muni færa rök fyrir því að hlutdrægni geti orðið til þess að mikilvæg-
um vísindalegum kenningum sé ekki veitt nægileg athygli svo að tækifæri
gefist til að þróa kenningarnar áfram og bera þær saman við athuganir.
Sé þetta rétt þá gætum við þurft að endurskoða viðteknar hugmyndir um
hvernig best sé að koma í veg fyrir óæskilega hlutdrægni í vísindum, og
mun ég víkja að þessu í lok greinarinnar.
Rökstuðningur og tilurð vísindakenninga
Áður en ég fjalla um Longino og Douglas þarf ég að útskýra mikilvægan
greinarmun sem mun leika stórt hlutverk í framhaldinu. Þegar við fjöllum
um vísindakenningar2 getum við í grófum dráttum spurt okkur tveggja
spurninga. Sú fyrri er:
Hvernig varð kenningin til? Með öðrum orðum: Hvað varð til þess
að einhverjum vísindamanni datt í hug að setja fram þessa kenningu,
þróa hana áfram og athuga hvort hún á sér stoð í veruleikanum?
Þessi spurning snýst um tilurð vísindakenninga. En við getum líka spurt
annars konar spurningar:
Hvernig er (eða var) kenningin rökstudd? Með öðrum orðum:
Hvaða athuganir, tilraunir, eða annars konar gögn voru notuð til að
rökstyðja eða réttlæta kenninguna, og hvert er eðli þessa rökstuðn-
ings?
Þessi spurning snýst því um rökstuðning vísindakenninga.
2 Sumir vilja gera greinarmun á kenningum (e. theories) og tilgátum (e. hypotheses) þar
sem fyrra hugtakið er látið vísa til staðhæfinga sem nú þegar hafa verið rökstuddar
með sannfærandi hætti en hið síðara látið vísa til staðhæfinga þar sem slíkan rök-
stuðning skortir. Þessi hugtakanotkun er óheppileg að því leyti að sömu staðhæfing-
unni þyrfti ýmist að lýsa sem kenningu eða tilgátu eftir því hversu sannfærandi rök
eru fyrir henni á hverjum tíma. Auk þess fellur þetta ekki að almennri orðanotkun,
því við notum orðið „kenning“ oft um hraktar vísindalegar staðhæfingar (samanber
til dæmis „ljósvakakenning Fresnels“, „þróunarkenning Lamarcks“, og „frum-
efnakenning Aristótelesar“). Ég kýs því að nota orðið „kenning“ yfir staðhæfingu
sem sett er fram af vísindamönnum til að lýsa eða skýra eitthvert fyrirbæri í ver-
öldinni óháð því hvort sú staðhæfing hafi verið rökstudd.
FinnuR Dellsén