Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 19
18
pólitískar eða siðferðilegar afleiðingar. Þau sem hafa lesið nýjustu skýrslur
Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (e. Intergovernmental
Panel on Climate Change, IPCC) vita að niðurstöður þeirra eru fyrst og
fremst settar fram á líkindafræðilegu formi. Til dæmis er sagt í skýrslunni
að líkurnar á því að loftslagsbreytingar séu fyrst og fremst af mannavöld-
um séu 95–100%. Að sama skapi finnur maður nánast alltaf umræðu um
líkurnar á að tilgáta sé sönn þegar maður les vísindagreinar þar sem fjallað
er um mögulegt orsakasamband milli tveggja þátta. Því má segja að þótt
niðurstöður vísindarannsókna séu oft settar fram í fjölmiðlum og í tali
manna á milli án þess að tala um líkur sé líkindafræðilega framsetningu
nánast alls staðar að finna innan vísindanna sjálfra.
Við fyrstu sýn grefur þetta undan hugmyndum Douglas um hlutdrægni
í vísindastarfi vegna þess að ef vísindamenn eru ekki að fást við að sam-
þykkja og hafna tilgátum heldur bara að ætla þeim tilteknar líkur þá er ekki
ljóst að matið sem Douglas vísar til (á því hvort tiltekin kenning sé studd
nægilega miklum gögnum til að samþykkja hana) sé nauðsynlegur hluti af
hefðbundnu vísindastarfi. Á móti bendir Douglas á að oft séu gerðar kröf-
ur til vísindamanna um að gefa ráð og miðla af þekkingu sinni til almenn-
ings og ýmissa stefnumótandi stofnana samfélagsins. Í slíku samhengi sé
ekki í boði að setja niðurstöður sínar fram í líkindafræðilegu formi, auk
þess sem vísindamennirnir þurfi þá að velja og hafna hvaða áhættuþætti
þeir leggi áherslu á.15 Jafnvel þótt slíkir vísindamenn eigni kenningum
aðeins tilteknar líkur í stað þess að samþykkja þær þurfa þeir því engu að
síður að taka ákvörðun þar sem hlutdrægni af því tagi sem Douglas lýsir
getur vel komið við sögu.
Tilurð, rökstuðningur og hlutdrægni
Hér að framan hefur verið fjallað um tvær ólíkar hugmyndir um hvernig
hlutdrægni og fordómar geta haft áhrif á niðurstöður vísindarannsókna.
Samkvæmt Longino eru órökstuddar forsendur, sem oft eru hlutdrægar
eða byggjast á fordómum, iðulega órjúfanlegur hluti af því hvernig vís-
indaleg gögn eru látin rökstyðja tiltekna vísindakenningu umfram aðrar.
Samkvæmt Douglas hafa hlutdrægir gildisdómar oft áhrif á hvaða vís-
indakenningar eru samþykktar því þeir ákvarða hvenær vísindamenn sam-
15 Sjá einkum Heather Douglas, „Rejecting the ideal of Value-Free Science“, Value-
Free Science? Ideals or Illusions, ritstj. John Dupre, Harold Kincaid og Alison Wylie,
Oxford: Oxford University Press, 2007, bls. 120–139.
FinnuR Dellsén