Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Side 28
27
eiríkur smári sigurðarson
Í ljósi sögu og heimspeki
Tvær tegundir rannsókna á manninum
I
„Þó menn byggðu hús sín á sandi alls staðar í heiminum væri ekki hægt að
leiða af því að svo ætti að vera.“1 Svo ritaði enski 17. aldar heimspeking-
urinn Thomas Hobbes í höfuðverki sínu, Leviathan. Orðin lýsa algengri
skoðun á muninum á sögu og heimspeki og markmið Hobbes var einmitt
að draga þennan mun fram á skýran og ögrandi hátt.2 Sagan segir frá því
sem hefur verið en hún getur ekki sagt hvað á að vera, hún segir frá því
sem fólk hefur gert en ekki hvað það á að gera. Það getur heimspekin hins
vegar gert. Svar sagnfræðinnar við þessari gagnrýni er að halda því fram að
heimspekin sé úr tengslum við raunveruleikann, að hún fáist við kenningar
eða tilgátur sem skipta enga aðra en heimspekingana sjálfa máli. Þessa
gagnkvæmu gagnrýni finnum við strax við upphaf heimspeki og sagnfræði
á Vesturlöndum, á 5. og 4. öld fyrir okkar tímatal þegar þessar fræðigrein-
ar voru að verða til.3 Þær mótast hvor af annarri, bæði í andstöðu hvor
við aðra en líka í tilraunum til að gera heimspekina sögulegri og söguna
heimspekilegri. Hér á eftir mun ég gera tilraun til að greina þessa þróun
og hvernig fræðigreinarnar mótuðust í samspili hvor við aðra.
Hobbes er sjálfur forvitnilegur í þessu samhengi því hann var enginn
áhugasagnfræðingur. Fyrsta verkið sem hann gaf út var þýðing á Sögu
Pelopseyjarstríðsins eftir forngríska sagnaritarann Þúkýdídes, og síðasta
1 Thomas Hobbes, Leviathan, ritstj. Noel Malcolm, The Clarendon Edition of the
Works of Thomas Hobbes, Oxford: Oxford University Press, 2012 [1651], bls. 320,
línu 28 til bls. 322, línu 5. Allar þýðingar í greininni eru höfundar, nema annað sé
tekið fram.
2 Ég mun nota orðið „saga“ jöfnum höndum um sögu, sagnfræði og sagnaritun allt
eftir samhengi (þó ég noti hin orðin stundum líka).
3 Allar tilvísanir í tíma eru fyrir okkar tímatal (f.o.t.), nema annað sé tekið fram.
Ritið 3/2016, bls. 27–48