Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 37
36
Viðtekin skoðun á þróun vísinda í Forngrikklandi er að þar hafi emp-
írísk vísindi og heimspeki vaxið hlið við hlið. Þróun empírískra vísinda
virðist fyrst og fremst hafa átt sér stað innan læknisfræðinnar og í þessu
samhengi er algengt að sjá fullyrðingar um að þar hafi historía verið stund-
uð af miklu kappi. Það er því merkilegt að sjá að þetta orð – eða skyld orð
– kemur sjaldan fyrir í varðveittum hippókratískum verkum (og þau eru
mörg varðveitt). Upphafsorð hippokratíska33 verksins Um fagið (de Arte)34
er ein undantekning og þau minna talsvert á upphafsorð Heródótosar – eru
jafnvel stæling á þeim.35 Höfundur vísar þar í „sýningar á einkaþekkingu“
(ἱστορίης οἰκείης ἐπίδειξις) sem ábyrgðalausir einstaklingar bera á borð
í stað raunverulegrar þekkingar. Hann er ekki að gagnrýna Heródótos
heldur ónefnda andstæðinga í fræðunum sem hann telur ekki gera lækn-
islistinni neitt gagn.
Ein markverðasta undantekningin er kafli í hippokratíska verkinu Frá
læknislist til forna (VM)36, sem ég fjalla um á eftir. Annars er það helst í
þremur verkum sem fjalla um getnað og þroska fóstursins og virðast öll
eftir sama höfund sem við finnum historía í notkun. Þetta eru verkin Um
sæðið (Genit), Um eðli barnsins (NatPuer) og Sjúkdómar IV (Morb IV).37 Hér
er það hins vegar ekki historía sem við finnum heldur nafnorðið historion
(ἱστόριον). Þetta orð merkir vísbending, sönnun, vitnisburður eða eitt-
hvað því líkt (merkingarlega skylt orðunum sameion og tekmerion, sem eru
algeng í merkingunni vísbending eða sönnun) og er í verkunum notað um
33 Margir tugir læknisfræðilegra verka eru varðveittir undir nafni Hippókratesar,
sem vafalítið var uppi seinni hluta fimmtu aldar. Það er hins vegar óvíst að nokkurt
þeirra sé eftir hann og því nota ég orðalagið „hippokratískt verk“.
34 Ég set hefðbundin latnesk skammnefni á hippokratískum verkum innan sviga til
að auðvelda auðkenningu þar sem lítil festa er á þýðingum titla þeirra á íslensku.
Sama gildir um verk Aristótelesar, sem ég ræði seinna.
35 Verkið er frá síðustu áratugum 5. aldar. Ágætis yfirlit yfir ritunartíma hippokratískra
verka er nú í Elizabeth M. Craik, The ‘Hippocratic’ Corpus. Content and Context,
London, New York: Routledge, 2015, en sjá líka sambærilegt yfirlit í Werner
Golder, Hippokrates und das Corpus Hippocraticum. Eine Einfürung für Philologen und
Mediziner, Würzburg: Köningshausen & Neumann, 2007.
36 Eins og Valdimar Steffensen þýddi titil verksins um miðja síðustu öld. Sjá Valdimar
Steffensen, Hippokrates: faðir læknislistarinnar. Saga hans og Hippokratisku læknislist-
arinnar ásamt þýðingum á víð og dreif úr ritum hans, Akureyri: Bókaútgáfan Norðri,
1946, bls. 53.
37 Þessi verk eru sennilega frá 3. áratug 5. aldar og því með elstu hippokratísku verk-
unum.
eiRíkuR smáRi siguRðaRson