Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 50
49
stefán snævarr
Viðtök og vísindi
Um Thomas Kuhn
Ekki er ofsögum sagt að Thomas Kuhn (1922–1996) hafi haft mikil áhrif á
vísindaheimspeki og menningarumræðu vestrænna manna. Samt er engin
ástæða til að ofmeta frumleika hans, kannski var hann réttur maður á rétt-
um tíma. Á tíma þegar raunspekin og jafnvel Popperisminn virtust hafa
runnið skeið sitt á enda. Langfrægasta rit Kuhns, The Structure of Scientific
Revolutions, kom nýverið út í íslenskri þýðingu Kristjáns Guðmundar
Arngrímssonar og nefnist Vísindabyltingar.1 Eyja Margrét Brynjarsdóttir
ritar inngang.2 Þessi grein mín er skrifuð í tilefni þýðingarinnar og mun
ég hefja mál mitt á því að gera almennt grein fyrir kenningum Kuhns.
Ég læt mér ekki nægja að ræða þær kenningar sem hann setur fram í
Vísindabyltingum, heldur fjalla líka um þær sem síðar komu. Fyrst ræði
ég kenningu hans um ósammælanleika (e. incommensurability), þ.e. kenn-
inguna um að ókleift geti reynst að bera saman vísindaleg kenningakerfi
þar eð sameiginlegan mælikvarða vanti. Því sé illmögulegt að kveða á um
hvaða kenningakerfi sé næst sannleikanum. Að því loknu sný ég mér að
hugtakinu um paradigma. Kristján þýðir „paradigm“ sem „viðmið“. Ég
kýs að nota nýyrði Þorsteins Vilhjálmssonar „viðtak“ (hið viðtekna, plús
viðmið, plús hugtak).3 Eins og lesendur munu sjá þá geymir viðtakið bæði
vísindaleg viðhorf (sjónar-mið), viðteknar skoðanir vísindamanna, viðmið
(t.d. skóladæmi), og vísindaleg hugtök. „Viðtak“ nær þessum margvíslegu
blæbrigðum „paradigm“ betur en „viðmið“.
1 Thomas Kuhn, Vísindabyltingar, þýð. Kristján Guðmundur Arngrímsson, Reykja-
vík: HÍB, 2015. Hér verður bæði vitnað í frumútgáfuna og þýðinguna.
2 Eyja Margrét Brynjarsdóttir, „inngangur“, í: Thomas Kuhn, Vísindabyltingar, bls.
9–49.
3 Sjá t.d. Þorsteinn Vilhjálmsson, „Vísindasagan í heimi fræðanna“, Skírnir 2/1989,
bls. 382–406, hér bls. 386, útskýring aftanmáls á bls. 401.
Ritið 3/2016, bls. 49–76