Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 75
74
þeirra (að biðja um slíkan mælikvarða er eins og að spyrja hvað sé norðan
Norðurpólsins). Túlkunarhringurinn er luktur.101
Kuhn hefði getað tekið líkingu Hans-Georgs Gadamers um sjóndeild-
arhringinn og heimfært á vísindin. Að hyggju Gadamers hefur sérhver
túlkandi eða sérhvert túlkunarsamfélag sinn sjóndeildarhring hugmynda,
ólíkan öðrum sjóndeildarhringjum. En túlkendur eru ekki fastir í hringn-
um, hann ferðast með þeim og breytist stöðugt. Og þegar tveir ólíkir
túlkendur mætast þá geta sjóndeildarhringir þeirra skarast, jafnvel runnið
saman. Sjóndeildarhringirnir eru tæpast ósammælanlegir. Séu þeir það þá
eru þeir aðeins ósammælanlegir með hófsömum (óróttækum) hætti. Hinn
eini sanni sjóndeildarhringur getur ekki verið til.102
Hugsa má sér eins konar viðtök sem eru slíkir sjóndeildarhringir, opnir
fyrir öðrum sjóndeildarhringjum, sammælanlegir við þá eða alla vega ekki
róttækt ósammælanlegir.103 En ekki er þar með sagt að hið eina sanna
viðtak hljóti að geta verið til. Þannig mætti komast hjá jafnt afstæðis- sem
alhyggju um vísindin, halda og sleppa um leið. Þó mætti sleppa orðanotkun
Kuhns, losa sig við orð á borð við „viðtak“ og nota í staðinn orðasambandið
„vísinda-sjóndeildarhringur“. Eðlisfræðingar á átjándu öld höfðu líklega
annan vísinda-sjóndeildarhring en nútímaeðlisfræðingar. Það er reynslu-
atriði hvort þessi tveir sjóndeildarhringir eru sammælanlegir eður ei.
Lokaorð
Ég hef ekki ofreynt mig á að gagnrýna Kuhn í þessari grein, þó bent á að
hann láti oft eiga sig að útskýra staðhæfingar sínar. Áherslan hefur fremur
verið á túlkun og útlistun á kenningum hans. Mér hefur verið tíðrætt um
tengsl Kuhns við Wittgenstein, t.d. tengslin milli regluspeki þess síðar-
nefnda og kenningarinnar um venjuvísindamenn sem beita reglum við-
takanna án umhugsunar. Einnig megi líta á hugtakið um viðtök sem fjöl-
skylduhugtak.
101 Finna má finna skyldar hugmyndir í verkum vísindaheimspekingsins Mary Hesse.
Hún telur að öll vísindi, jafnt náttúru- sem mannvísindi, séu seld undir túlkunar-
hringinn. Mary Hesse, „in Defense of Objectivity“, Revolutions and Reconstructions
in the Philosophy of Science, ritstj. Mary Hesse, Brighton: The Harvester Press, 1980,
bls. 167–186.
102 Hans-Georg Gadamer, Wahrheit und Methode, bls. 308–312.
103 Richard J. Bernstein er á svipuðu róli og ég, hann túlkar kenninguna um ósammæl-
anleika þannig að hún sé samrýmanleg kenningu Gadamers um sjóndeildarhring-
ina. Richard J. Bernstein, Beyond Objectivism and Relativism. Science, Hermeneutics
and Praxis. Philadelphia: University of Pennsylvania Press, 1983, bls. 92.
steFán snævaRR