Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 76
75
Kuhn hefur lög að mæla er hann segir að vísindin séu bundin breytni og
sögu með ýmsum hætti. Sá sem sér vísindastarfið einungis sem fræðilega
iðju mun aldrei skilja það. Sá sem gleymir sögu vísindanna er dæmdur til
að misskilja þau. Ekki dugar heimspekingnum að sitja á sínum góða rassi
og búa til mataruppskriftir fyrir eldhús vísindanna. Samt hef ég staðhæft
í þessari grein að það sé innbyggð skilgreining á vísindahugtakinu í speki
Kuhns. Vísindin séu knippi málleikja, því verði vísindin ekki eðlisákvörð-
uð.
Ég held að Kuhn hafi á síðari árum verið kominn vel á veg með að leggja
grundvöll að góðri kenningu um skynsemi vísinda, kenningunni um þum-
alfingursreglurnar. Upplýst dómgreind ræður beitingu þessara reglna.
Ég tók undir sumt af gagnrýni Davidsons á hugmyndina um ósammæl-
anleikann en sagði að hann hefði gengið of langt í gagnrýninni. Vel getur
hugsast að til sé hófsamur ósammælanleiki. Þá nefndi ég skyldleika Kuhns
við túlkunarfræðinga og benti á túlkunarfræðilega leið út úr ógöngum
afstæðishyggjunnar. Ég kynnti mitt Gadamer-innblásna hugtak um vísinda-
sjóndeildarhringi.
Mikið vatn er til sjávar runnið síðan Kuhn setti fram sínar umdeildu
kenningar. Samt ber öll umfjöllun um eðli vísindanna keim af þeim.
Ú T D R Á T T U R
Viðtök og vísindi. Um Thomas Kuhn
Meginkenningar Thomasar Kuhns eru kynntar, túlkaðar og rökræddar í þessari
grein, bæði þær sem hann setur fram í Vísindabyltingum og eins þeim sem síðar
komu. Hugtök hans um viðtök (e. paradigm) og ósammælanleika (e. incommensurabi-
lity) eru í brennidepli. Lögð er áhersla á tengsl Kuhns við Ludwig Wittgenstein.
Líta megi á viðtök (e. paradigm) sem vísindalega málleiki. Einnig megi telja hugtakið
um viðtök sem fjölskylduhugtak. Áhersla Kuhns á breytni sem grundvöll vísinda er
skyld hugmynd Wittgensteins um virknishætti sem grundvöll máls og merkingar.
Tekið er undir sumt af gagnrýni Donalds Davidson á hugmyndina um ósammæl-
anleikann en sagt að hann hafi gengið of langt í gagnrýninni. Ekkert mæli gegn því
að gera ráð fyrir hóflegum, óróttækum ósammælanleika. Að lokum kynnir höfundur
sitt Gadamer-innblásna hugtak um vísinda-sjóndeildarhringi og tekur undir með
þeim sem segja að upplýst dómgreind sé einn af burðarásum vísinda.
Lykilorð: Kuhn, viðtök, venjuvísindi, ósammælanleiki, vísindasjóndeildarhringir
ViðTöK OG VÍSiNDi