Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 100
99
vera knútsdóttir
Reimleikar í Reykjavík
Menningarlegt minni og borgarrými
Bókin Reimleikar í Reykjavík er safn munnmælasagna um drauga í Reykjavík
og kom út hjá Forlaginu árið 2013.1 Sögurnar eru skrásettar af rithöf-
undinum Steinari Braga sem er þekktur fyrir skáldsögur sínar er byggja
á hrollvekjandi stefjum um leið og þær skírskota til samfélagsins í sam-
tímanum og gagnrýna það. Í Reimleikum í Reykjavík er gerð tilraun til
að kortleggja reimleika og birta staðfræðilega greiningu á sameiginlegu
minni. Draugasögurnar birta nýtt sjónarhorn á byggingar, götur og önnur
rými í borgarlandslaginu sem hafa fyrirfram ákveðna stöðu í sameiginlegu
minni borgaranna; ýmist sem menningarlegur minnisvettvangur, opinber-
lega viðurkenndur, eða horfnir staðir sem fallið hafa í gleymsku. Þá opna
þær einnig fyrir umfjöllun um þá rótgrónu hugmynd að minni sé samofið
stöðum og rými.
Markmið þessarar greinar er að skoða nánar þetta samband minnis og
rýmis eins og það er sett fram í bókinni en einnig í víðara samhengi því
sögurnar í Reimleikum í Reykjavík birta aðeins eitt sjónarhorn staða sem
byggja á marglaga frásögnum og eiga oft á tíðum flókna sögu. Frásagnirnar
sýna umfram allt hvernig minni tekur á sig áþreifanlega mynd í borg-
arrýminu og hvernig staðir verða að hirslum fyrir minningar ólíkra hópa.
Í sumum tilvikum verða staðirnir að átakaflötum sem endurspeglast í tog-
streitu milli opinberra minninga, sem eru viðurkenndar af yfirvöldum sem
mikilvægur þáttur í menningarlegu minni þjóðarinnar, og gleymdum og
þögguðum minningum, sem ekki eru opinberar heldur hvíla undir yfir-
1 Steinar Bragi, Reimleikar í Reykjavík, Reykjavík: Forlagið, 2013. Mig langar að
þakka Gunnþórunni Guðmundsdóttur, Jóni Ólafssyni og ritrýnum fyrir gagnlegar
athugasemdir og ábendingar við ritun greinarinnar.
Ritið 3/2016, bls. 99–119