Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Qupperneq 101
100
borði menningarlega minnisins. Sú togstreita sýnir hvernig menningar-
lega minnið er hlaðið reimleikum, þ.e. hvernig það er ásótt af vofulegum
minningum, og hvernig opinber minnisvettvangur í borgarrýminu bygg-
ir á marglaga frásögnum frá ólíkum tímum og í ólíkum miðlum. Bókin
Reimleikar í Reykjavík er dæmi um slíkan miðil sem leitast við að víkka út,
bæta við og jafnvel flækja merkingu minnisvettvangs í borgarrýminu.
Hér verða teknar fyrir þrjár sögur í bókinni. Þær fjalla um þrjá ólíka
staði sem eru tengdir ólíkum tegundum af minni og minningum. Fyrst
er það draugasaga sem gerist í Alþingishúsinu sem er rótgróið tákn í hinu
opinbera menningarlega minni. Í annarri sögunni er rifjaður upp horf-
inn staður í borgarrýminu sem fallið hefur í gleymsku en þriðja sagan
er greinargerð um stað sem verður að átakafleti fyrir minningar ólíkra
hópa. Þar öðlast þaggaðar minningar vofulega nærveru í opinberu rými
menningarlega minnisins. En fyrst verða kynntar hugmyndir um hreyf-
anleika menningarlega minnisins, um tengsl minnis við reimleikafræði (e.
spectralities) og að lokum hvaða mynd minni tekur á sig í borgarrýminu.
Hreyfanleiki menningarlega minnisins
Upphaf minnisfræða má rekja til þriðja áratugar síðustu aldar, meðal ann-
ars til hugtaks franska fræðimannsins Maurice Halbwachs, sameiginlegt
minni, sem lýsir því hvernig einstaklingurinn lærir að móta minningar fyrir
tilstilli félagslegra ramma samfélagsins.2 Áhrifa Halbwachs tók hins vegar
ekki að gæta fyrr en löngu síðar, með annarri bylgju minnisfræða upp úr
1980 þegar hjónin Aleida og Jan Assmann, ásamt fleiri fræðimönnum, tóku
að kynna hugmyndir hans inn á svið nútíma minnis- og menningarfræða.
Assmann hjónin hafa ennfremur þróað hugmyndina um sameiginlegt
minni með því að gera greinarmun á samskiptaminni (e. communicative
memory) og menningarlegu minni (e. cultural memory).3 Samskiptaminni
verður til á vettvangi samskipta í gegnum tungumálið en einnig í gegnum
2 Astrid Erll, Memory in Culture, þýð. Sara B. Young, London og New York: Palgrave
Macmillan, 2011, bls 172. Guðmundur Hálfdanarson skrifar um hugtak Halb-
wachs og segir það undir áhrifum frá hugtaki Emile Durkheimers „Collective
conscience“. Sjá „Collective Memory, History, and National identity“, The Cultural
Reconstruction of Places, ritstj. Ástráður Eysteinsson, Reykjavík: Háskólaútgáfan,
2006, bls. 83–100.
3 Sjá Jan Assmann, „Communicative and Cultural Memory“, Cultural Memory
Studies. An Interdisciplinary and International Handbook, ritstj. A. Erll and A. Nünn-
ing, (Berlin: Walter de Gruyter, 2008), bls. 109–119.
veRa knútsDóttiR