Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Síða 106
105
stýrir skilningi hennar, afstöðu og viðhorfum gagnvart ákveðnum fyr-
irbærum í samtímanum. Þessi afstaða kemur einnig fram í grein Ármanns
Jakobssonar, „Íslenskir draugar frá landnámi til Lúterstrúar: inngangur
að draugafræðum“.18 Þar gerir Ármann grein fyrir draugaflokkun Jóns
Árnasonar sem hann segir móta hugmyndir nútímamanna um drauga. Sú
greining sýnir hvernig íslenskir draugar eru yfirleitt álitnir fjandsamlegir
og samskipti manna við þá miða yfirleitt að því að kveða þá niður og losna
við þá úr heimi lifenda. Lýsingar á reimleikum og draugagangi í þjóðsög-
um og Íslendingasögum leggja grunninn að sögum af vofulegri nálægð í
samtímatextum og þeim viðhorfum og afstöðu gagnvart vofum sem þar
birtast.
Derrida dregur jafnframt fram sterk tengsl á milli vofulegrar nærveru
og minnis. Ólíkt venjubundnum hugmyndum um drauginn, sem þarf að
kveða niður, vill Derrida að við bjóðum vofuna velkomna, lærum að lifa
með henni og stofnum til samræðu við hana: „því verður [...] að læra að lifa
með vofum, í viðhaldinu, í samræðunni, félagsskapnum, eða í samfylgd, í
viðskiptum án þess að versla með drauga. [...] Og þessi verund með vofum
myndi einnig vera, ekki aðeins heldur jafnframt, pólítík minnis, arfleifð
kynslóða.“19 Vofufræði snýr að mikilvægi þess að læra að lifa með vofum
en um leið að gera sér grein fyrir því að vofan verður ekki greind í þaula né
samræðan endanleg sem stofnað er til við hana.
Að hugsa um reimleika og vofufræði í sömu andrá og menningarlegt
minni undirstrikar kraftmikla virkni minnis, sem byggir í senn á því að
muna og gleyma, og sýnir fram á hvernig minnið er aldrei stöðugt eða
óbreytanlegt heldur í sífelldri endurvinnslu, endurnýtingu og endurskoð-
un. Reimleikar, vofur og afturgöngur minna á gleymdar eða þaggaðar
minningar sem skjóta upp kollinum og óska eftir hlutdeild í hinu almenna
menningarlega minni. Hugmyndin um minnisvettvanginn í formi staðar,
sem sameinar hugmyndina um hlutbundna minnið annars vegar og rýmið
sem tekur á sig táknræna merkingu hins vegar, helst einnig í hendur við
18 Ármann Jakobsson, „Íslenskir draugar frá landnámi til lúterstrúar. inngangur að
draugafræðum“, Skírnir 1/2010, bls. 187–210.
19 „So it would be necessary […] to learn to live with ghosts, in the upkeep, the
conversation, the company, or the companionship, in the commerce without the
commerce of ghosts. […] And this being-with specters would also be, not only but
also, a politics of memory, of inheritance of generations.“ Jacques Derrida, Specters
of Marx. The State of the Debt, the Work of Mourning and the New International, þýð.
Peggy Kamuf, London og New York: Routledge, 1994, bls. 125. Íslensk þýðing
mín.
REiMLEiKAR Í REYKJAVÍK