Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Síða 107
106
hugmyndina um borgina og borgarrýmið sem einkennist fyrst og fremst af
hreyfanleika og stöðugum breytingum.
Menningarlegt minni og gleymska í borgarrýminu
Með því að tengja draugasögur við ákveðna staði í borginni leggja Reimleikar
í Reykjavík til kort af reimleikum sem er raunar birt á síðustu blaðsíðu bók-
arinnar. Reimleikakortið sýnir staðfræðilega greiningu á minni og endur-
speglar þá hugmynd að minni og rými séu samofin. Paul Connerton ræðir
tengsl minnis og rýmis í bókinni How Modernity Forgets frá árinu 2009 þar
sem hann kynnir hugtak sitt staðarminni (e. place memory) sem er tegund af
staðbundnu minni en einnig tengt mannslíkamanum.20 Staðarminni bygg-
ir á goðsögn sem Frances Yates greinir frá í bók sinni Art of Memory frá
árinu 1966 um gríska skáldið Simonides sem Ciceró fjallaði um í ritinu De
Oratore.21 Goðsögnin lýsir slysi sem verður þegar þak hrynur yfir veislusal
með þeim afleiðingum að gestirnir farast. Simonides getur borið kennsl
á líkin því hann getur rifjað upp hver hafði setið í hvaða sæti. Uppröðun
sætanna í rýminu hjálpar skáldinu að muna hver hafði verið hvar þegar
ógæfan dundi yfir.
Yates lýsir því hvernig uppgötvun skáldsins á því hvernig uppröðun
innan rýmis getur virkað sem hjálpartæki fyrir minnið hafi leitt hann til
þess að finna upp minnislistina; ars memoriae. Minnislistin byggir á regl-
unni um loci et imagines; einstaklingurinn notar ímyndunaraflið til að sjá
fyrir sér „loci“, þ.e. stað eða rými, landslag, byggingu eða herbergi sem
getur bæði verið til í raunveruleikanum eða verið algjörlega ímyndað.
Hann kemur þar svo fyrir myndum, helst mjög lifandi og eftirminnilegum
myndum, sem vísa í orðin sem hann þarf að muna. Síðar getur hann heim-
sótt staðinn í huganum og ferðast um rýmið til að safna saman, í réttri röð,
myndunum sem hjálpa til við að rifja upp það sem hann lagði á minnið í
upphafi, til dæmis sagnabálk, ræður eða aðra gerð af frásögn. Goðsögnin
vísar til þeirra sterku tengsla sem eru á milli minnis og rýmis og hefur verið
útfærð og notuð sem útgangspunktur í skrifum margra fræðimanna. Þá
má ímynda sér að hún hafi átt sinn þátt í að lieu de mémoire hugtakið hafi
yfirleitt verið tengt ákveðnum stað í hefðbundnum skilningi þess orðs.
20 Paul Connerton, How Modernity Forgets, Cambridge: Cambridge University Press,
2009, bls. 4–5.
21 Frances Yates, The Art of Memory, Chicago: Chicago University Press, 1966, bls.
1–2.
veRa knútsDóttiR