Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Síða 113
112
ómeðvitaður þáttur í hversdagslífi manna á þeim tíma; þ.e. staður sem bjó
ekki yfir táknlegu inntaki fyrr en eftir að hann var horfinn. Sú staðreynd,
að lindin var forsenda taugaveikinnar, gefur henni táknræna merkingu sem
uppspretta sjúkdóma og dauða. Höfundur frásagnarinnar í Reimleikum
veltir fyrir sér hvaða áhrif sú merking hafi á staðinn í samtímanum. Hann
beitir enn fremur þeirri merkingu til að skapa hina eiginlegu draugasögu
sem greinir frá óútskýranlegri og óhugnanlegri lykt sem hann segir að fólk
hafi talið sig finna á staðnum. Lyktin, sem höfundur lýsir sem „rammri
fýlu“ er svipi til „blöndu af saur- og brennisteinslykt“, minnir á vofulega
nálægð lindarinnar, eða öllu heldur áhrif hennar, og nálægð dauðans á
þessum stað í borgarrýminu.39
Frásögnin um Móakotslind varpar einnig áhugaverðu ljósi á sögu
Skuggahverfisins. Á tímum taugaveikinnar bjó næstum þriðjungur bæjar-
búa í verkamannahverfinu sem á vissan hátt tengdist fátækt og basli. Í dag
hefur þetta sama hverfi aftur á móti orðið að tákni góðæris og efnahagslegs
uppgangs í samfélaginu á árunum fyrir hrun með stórframkvæmdum og
byggingum skýjakljúfa sem hýsa verðmætustu fasteignir borgarinnar. Þrátt
fyrir að höfundur frásagnarinnar í Reimleikum í Reykjavík velti fyrir sér
hvort einhverjir gamlir sýklar hafi rótast upp við þær framkvæmdir er eldri
merking staðarins löngu gleymd í samtímanum. Minningin um lindina
varpar áhugaverðu ljósi á starfsemi og virkni menningarlega minnisins í
borgarrýminu; hvernig minnisstaðurinn og það minnisrými, sem við lifum
og hrærumst í frá degi til dags, öðlast ómeðvitaða en táknræna merkingu
sem breytist með tíð og tíma og jafnvel án þess að við tökum eftir því.
Það er því kaldhæðnislegt að hugsa til þess að reynt hefur verið að halda
minningu lindarinnar á lofti með götunöfnum en tvær götur á svæðinu
eru nefndar eftir Móakotslind; annars vegar „Lindargata“ og hins vegar
„Vatnsstígur“. Þessi tilraun til að heiðra minningu staðar, með því að skapa
minnisvarða í formi götuheitis, hvetur í þessu samhengi ekki til þess að
við minnumst hans með virkum hætti. Lindin, og merkingin sem henni er
gefin, öðlast fremur vofulega nærveru í gegnum götuheitin. Frásögnin um
Móakotslind rifjar upp minningu hennar og sýnir hvernig hún gerir tilkall
til að verða hluti af menningarlegu minni sem minnisvettvangur kirfilega
bundinn staðsetningu í borgarrýminu. Í þessu samhengi reynir frásögnin
að varðveita minningu sem vísar ekki aðeins til sambands heilsufars og
umhverfis heldur einnig til samfélagsgerðar fyrri tíma – áður en nútíminn
39 Steinar Bragi, „Móakotslind“, Reimleikar í Reykjavík, bls. 18.
veRa knútsDóttiR