Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 114
113
hóf innreið sína í borgarrýmið með öllum sínum lögum og reglugerðum
um vatnsveitur og lagnir. Út frá kenningum Connertons sýnir þessi litla
saga hvernig nútímaborgarrýmið skapar og ýtir undir gleymsku.
Landakotsskóli:
Trámatískur minnisstaður í borgarrýminu
Þriðja frásögnin er jafnframt ekki draugasaga í hefðbundnum skilningi
heldur greinargerð er höfundur tekur saman um tiltekinn stað sem í dag
er þekktur fyrir þaggaðar minningar um barnamisnotkun. Staðurinn er
Landakotsskóli sem áður fyrr var kaþólski barnaskólinn í Reykjavík og
staðsettur er við hliðina á Landakotskirkju, dómkirkju kaþólsku kirkjunnar
í Reykjavík. Höfundur byrjar greinargerðina á að segja sögu séra Ágústs
George sem varð skólastjóri skólans árið 1961 og gegndi þeirri stöðu til
aldamóta. Þegar hann lést árið 2008, og í kjölfarið á sjálfsvígi samverka-
konu hans og að því talið er ástkonu, Margétar Müller, sama ár, hófu
fórnarlömb að stíga fram og segja frá því ofbeldi sem þau hefðu orðið fyrir
sem nemendur við skólann af hálfu Ágústs og Margrétar. Landakotsskóli
er skýrt dæmi um átakaflöt fyrir minningar ólíkra hópa; þar sem þaggaðar
minningar fórnarlambanna skapa reimleika í rými sem opinberlega hefur
ákveðna merkingu í hinu menningarlega minni.
Landakotskirkja, eða Basilíka Krists konungs, er dómkirkja eða emb-
ættiskirkja biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Hún var vígð árið 1929.
Kaþólskir prestar komu til Íslands strax á nítjándu öld og reistu litla kapellu
árið 1864 en síðar timburkirkju við Túngötu.40 Landakotskirkja var teikn-
uð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara í nýgotneskum stíl og nýreist
var hún stærsta kirkja landsins.41 Árið 1902 komu Jósefssystur og reistu
Landakotsspítala ásamt prestum frá trúboðskirkjunni í Danmörku. Þær
tóku einnig að kenna kaþólskum börnum í húsakynnum sínum í Landakoti
en það varð upphaf Landakotsskóla.42 Þessar upplýsingar eru reifaðar á
vef kaþólsku kirkjunnar á Íslandi en þar kemur einnig fram að fjölgað
hefur síðustu ár í kaþólska söfnuðinum á Íslandi; árið 1960 var aðeins
40 „Ágrip af sögu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi“, vefur Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi,
sótt 8. desember 2015 af http://www.catholica.is/saga-katholksu-kirkjunnar-a-isl-
andi.
41 „Landakotskirkja (1929)“, Kirkjukort, sótt 8. desember 2015 af http://kirkjukort.
net/kirkjur/landakotskirkja_0308.html.
42 „Ágrip af sögu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi“.
REiMLEiKAR Í REYKJAVÍK