Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 122
121
guðrún steinþórsdóttir
„Af allri písl og kvalræði
er Svartapísl verst því hún étur sálina“
Ég var ekki gömul þegar mér var orðið það ljóst, að líf mitt jafngilti sjúk-
dómi, og undan þeim sjúkdómi varð ekki komist, en það mátti bæta hann
með einu móti: að bæta öðrum sjúkdómi við, sem þá mátti kallast sjúkdóm-
urinn í sjúkdómnum.1
Árið 1977 kom út fyrsta bók Málfríðar Einarsdóttur, Samastaður í tilver-
unni. Bókin vakti af ýmsum ástæðum mikla athygli, til dæmis af því að í
henni var stefnt saman ólíkum textabrotum, spuna og tilraunakenndum
skrifum. Málfríður þótti hafa óvenjulega og sérstaka sýn á lífið, tungutakið
var kynngimagnað og gagnrýni hennar á samtímamenningu, menn og
málefni óvægin. En kannski skipti mestu í umfjöllun dagblaðanna að höf-
undurinn var orðinn gamall, 78 ára.2 Þótt Málfríður hafi verið hnigin að
aldri þegar Samastaður í tilverunni kom út átti hún eftir að senda frá sér
eina þýdda skáldsögu3 og fimm frumsamin rit, þar af þrjú sjálfsævisöguleg
og tvær skáldsögur. Í sjálfsævisögulegu ritunum ræðir Málfríður gjarnan
um líðan sína, veikindi og sársauka. Hún stríddi við veikindi lungann úr
ævi sinni en hún fæddist veikbyggð og fékk ung berkla sem urðu henni
næstum að aldurtila. Veikindin höfðu áhrif á mótun hennar, sýn hennar á
heiminn og stöðu í samfélaginu og þar með hvernig hún valdi að segja frá
lífi sínu og upplifunum.
Í þessari grein er sjónum einkum beint að frásögnum Málfríðar af eigin
1 Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, Reykjavík: Ljóðhús, 1978, bls. 280.
2 Sjá t.d. Rannveig G. Ágústsdóttir, „Sigur Málfríðar“, Dagblaðið, 10. mars 1978;
inga Huld Hákonardóttir, „Málfríðleikur“, 19. júní, 19. júní 1978 og Sigurlaugur
Brynleifsson, „Tilvera Málfríðar Einarsdóttur“, Þjóðviljinn, 20. desember 1977.
3 Skáldsagan Dvergurinn eftir Pär Lagerkvist kom út í íslenskri þýðingu Málfríðar
árið 1982. Sjá Pär Lagerkvist, Dvergurinn, þýð. Málfríður Einarsdóttir, Reykjavík:
Almenna bókafélagið, 1982.
Ritið 3/2016, bls. 121–142