Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 124
123
einstaklingsbundinn og alltaf sálfræðilegt ástand. Bókmenntafræðingurinn
David B. Morris hefur gert rannsóknir á sársauka að sérsviði sínu en hann
bendir á í greininni „Narrative, Ethics and Pain“ að kosturinn við þessa
skilgreiningu sé að tilfinningaleg (e. emotional) upplifun sé tengd sársauk-
anum í stað þess að hún sé sögð vera viðbrögð við honum eins og lengi
tíðkaðist í lífvísindum. Morris nefnir líka að skilgreiningin vitni um mjög
breytta hugsun um sársauka. Fræðimenn haldi því ekki lengur fram að
einu orsakir hans séu líkamsstarfsemi, taugaboð og aðrir læknisfræðilegir
þættir heldur sé nú viðurkennt að hann geti einnig átt sér aðrar rætur.
Morris gerir þá ráð fyrir því að menning og umhverfi kunni að vera meðal
orsakavaldanna og getur þess að sé tekið mið af samspili menningar og
sársauka séu meiri líkur en ella á að menn skilji að unnt sé að skýra frá
veikindum í frásögn þannig að mark sé takandi á.7
innan atferlisfræði eru uppi kenningar sem ríma vel við hugræna nálg-
un Morris, en þar hefur því verið haldið fram að bæði streita vegna lang-
varandi álags og stakur streituvaldandi atburður geti leitt af sér þunglyndi.8
Texti Málfríðar í Úr sálarkirnunni vitnar um að líðan hennar og upplifun
á heiminum markist mjög af því umhverfi og samfélagi sem hún hrærist
í hverju sinni. Það kemur til dæmis í ljós að frásagnir hennar af lífinu í
Reykjavík á fjórða áratugnum og dvöl hennar í Danmörku seint á fimmta
áratugnum eru eins og svart og hvítt. Í Reykjavík er áberandi stéttaskipt-
ing, þar er atvinnuleysi og mikil fátækt, vont húsnæði og barnadauði tíður,
svo fátt eitt sé nefnt. Aðstæður eru með öðrum orðum hryllilegar og engin
furða að þessum þætti bókarinnar skuli ljúka á lýsingum Málfríðar á þung-
lyndi og vanlíðan.9 Hún hefur hvorki stjórn á ytri aðstæðum né sinni eigin
líðan. Í frásögninni af verunni í Danmörku kveður við annan tón. Þótt
þar sé líka stéttaskipting og Málfríður þjáist af ýmsum kvillum, lýsir hún
til dæmis fallegri náttúru, segir frá góðu fólki sem hún umgengst og hælir
dönskum læknum sem hlusta á hana og geta hjálpað henni. Sömuleiðis
ræðir hún ýtarlega um ljósið sem lífgjafa og leggur þar með áherslu á að
sér líði betur í Danmörku en á Íslandi.10 Þegar Málfríður ræðir um líðan
7 Sjá David B. Morris, „Narrative, ethics, and pain“, bls. 57–59.
8 Í þessu samhengi má bæði benda á kenningu Peters Lewinsohn og kenningu Mart-
ins Seligman um lært hjálparleysi. Sjá t.d. Jutta Joormann, „Cognitive Aspects of
Depression“, Handbook of depression, ritstj. ian H. Gotlib og Constance L. Hammen,
2. útgáfa, New York: The Guilford Press, 2009, bls. 298–321, hér bls. 300.
9 Sjá Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, bls. 10–35.
10 Sjá sama rit bls. 43–68.
AF ALLRi PÍSL OG KVALRæði . . .