Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Side 137
136
Af allri písl og kvalræði er Svartapísl verst því hún étur sálina, sál
sem Svartapísl hefur étið vill guð ekki eiga, segir hana ónýta vera.
Lengi átti ég Svörtupísl og ætlaði mig lifandi að drepa, en svo
hvarf hún á einni nóttu. Hún fór annað og ætlaði að drepa þann
mann, dvaldist með þeim manni náttlangt. Löng nótt var það, já
kvalanótt.49 (leturbreyting mín)
Með árásarlíkingum dregur Málfríður upp mynd af blóðþyrstum óvini;
Svartapísl er andstæðingur sem vill hana feiga. Í sömu mund er Svörtupísl
og guði stillt upp sem andstæðum og þar með má líta á Svörtupísl sem
púka, útsendara djöfulsins. Hér örlar því á gamalgrónum hugmyndum
um tengsl þunglyndis við fjandann og kannski líka hvernig þunglyndi var
talið ala af sér þunglyndi.50 Nafn píslarinnar kann reyndar einnig að fela
í sér skírskotun til djöfulsins því almennt hafa menn kennt svarta litinn
við hvers konar ill öfl. Hér er því á ferðinni hugtakslíkingin iLLSKA ER
MYRKUR og vert að nefna að hana má bæði finna í tengslum við galdur51
og þunglyndi samanber orðin ,svartigaldur’ og ,svartagall’.52 Nafngiftin
undirstrikar að þunglyndisárinn Svartapísl tilheyrir myrkraöflunum og
hve mikinn sársauka koma hennar boðar. En í sömu mund er ísmeygileg
sjálfsírónía Málfríðar nærri í textanum þannig að guðleysingjar í hópi les-
anda geta séð Svörtupísl fyrir sér sem frelsandi veru sem kemur bless-
unarlega í veg fyrir að sál Málfríðar lendi í himnaríki.
Svartapísl er óútreiknanleg og getur ráðist á Málfríði hvenær sem er og
hvar sem er:
Stundum reis þessi ófreskja upp af gólfinu í svo sem eins metra fjar-
lægð, kolgrá, illileg, eða með engan svip, gerði mér hvern stað að
eyðistað (einu sinni Landsbókasafnið), hvern mann marklausan mér,
49 Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, bls. 33.
50 Sjá t.d. Johann Weyer, úr „Of Deceiving Demons“, The Nature of Melancholy, ritstj.
Jennifer Radden, Oxford, New York o.fl.: Oxford University Press, 2000, bls.
97–105.
51 Geðveiki og þunglyndi voru oft bæði tengd göldrum og djöflinum. Sjá t.d. Matthías
Viðar Sæmundsson, „Galdur og geðveiki. Um píslarsögur og galdrasóttir á sautj-
ándu öld“, Píslarsaga séra Jóns Magnússonar, Reykjavík: Mál og menning, 2001, bls.
343–419.
52 Sjá Mörður Árnason, Íslensk orðabók, bls. 1525. Sem fyrr segir er sorti eða myrkur
algengasta líkingin sem menn nota um þunglyndi. Út frá líkingunni hafa sprottið
upp ýmsir frægir persónugervingar þunglyndis sbr. svartur hundur Winstons
Churchill.
guðRún steinþóRsDóttiR