Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Side 141
140
„Ég teikna sjálf megnið af
þessum ófreskjum sem ég
sauma, einstaka krossfiski
hef ég þó stolið og Svavar
Guðnason hefur teiknað
ýmis kvikindi fyrir mig.
Svo hef ég stækkað myndir
eftir Kjarval og tekið upp
gömul mynstur.“61 Sumt af
myndefni saumaskaparins
sver sig í ætt við lýsingar
á Svörtupísl en í Samastað
í tilverunni kemur fram að
Málfríður noti hannyrð-
irnar til að sauma frá sér
fóbíurnar svörtu,62 það er
að segja þunglyndið. Hvort
sem hún fæst við ritlist
eða saumaskap, myndger-
ir Málfríður þunglyndið
sem svarta utanaðkomandi
veru.63
Það eru ekki einvörð-
ungu svipaðar líkingar fyrir þunglyndi, Svartapísl og svörtu fóbíurnar,
sem kallast á í þessum ólíku listformum heldur eru einnig formtilraun-
ir Málfríðar áberandi á báðum sviðum. Kápumynd Rása dægranna er af
útsaumi Málfríðar. Hún ber skýrt vitni um listsköpun Málfríðar. Myndin
sjálf er tilraunakennd ekki síður en texti bókarinnar, sem er – rétt eins og
Úr sálarkirnunni – samansafn ólíkra texta um ýmis málefni rituð á sér-
stakan og óhefðbundinn hátt. Erfitt er að átta sig á hvað útsaumsmynd
Málfríðar sýnir nákvæmlega. Sjálfri hafði mér dottið í hug að um væri
61 Þórunn Sigurðardóttir, „Ég hallast helst að íslenskum hégiljum“, Þjóðviljinn, 9.–10.
janúar 1982, bls. 16–17.
62 Sjá Málfríður Einarsdóttir, Samastaður í tilverunni, Reykjavík: Forlagið, önnur
útgáfa, 2008, bls. 30.
63 Þess má til gamans geta að í viðtali við Steinunni Sigurðardóttur segir Málfríður að
ekkert sé líkt með strammaskáldskap og hefðbundnum skáldskap eða: „Stramma-
skáldskapurinn er mestallt andlaus vinna við uppfyllingu.“ Steinunn Sigurðardóttir,
„Ég vildi ekki leika það eftir mér“, Vísir, 11. desember 1977, bls. 3.
guðRún steinþóRsDóttiR