Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Side 148
147
En femínískir fræðimenn þurftu að átta sig á hvernig hægt væri að létta
á þeirri spennu sem menn skynjuðu almennt á milli áreiðanleika rannsókn-
arniðurstaðna og þeirra pólitísku, félagslegu og/eða efnahagslegu hvata
eða hagsmuna sem stýrðu þeim, hvort heldur vísindamenn eða þeir sem
styrktu eða kostuðu rannsóknirnar áttu í hlut. Fæstir þeirra femínista sem
lögðu stund á náttúruvísindi, megindlega aðferðafræði félagsvísinda og
vísindaheimspeki sáu ástæðu til að draga í efa að félagsleg og pólitísk gildi
og hagsmunir væru skaðlegir áreiðanleika rannsóknarniðurstaðna. Efling
„hreinna vísinda“ og „grunnrannsókna“ var talin mikilvægasta markmið
góðra vísinda.
Hvaða karlremba og karllægni var það sem femínískir gagnrýnendur
bentu á að hefði mótað þær rannsóknir sem taldar voru framúrskarandi?
Um þetta hefur fjölmargt verið skrifað og aðeins örfá dæmi verða nefnd
hér.7 Í rannsóknum í líffræði, læknisfræði og heilbrigðisfræðum var yfirleitt
litið svo á að kvenlíkaminn væri að engu leyti frábrugðinn líkama karla ef
frá voru talin hormóna- og æxlunarkerfin, líkamsstærð og þær takmark-
anir sem taldar voru einkenna heila kvenna. Þrátt fyrir það urðu konur
fyrir óþörfum íþróttameiðslum allar götur þangað til þjálfarnir lærðu að
bera kennsl á þá sérstöku líffærafræðilegu þætti sem höfðu áhrif á íþrótta-
iðkun þeirra. Í áhrifamikilli samantekt á rannsóknum á kynjamun kom
meðfæddur munur á færni og getu drengja og stúlkna, karla og kvenna,
aðeins fram í sex þýðingarmiklum atriðum.8 Eðlilegt líkamsferli kvenna,
svo sem blæðingar, meðganga, barnsfæðingar og tíðahvörf, voru ávallt
álitin vandamál sem lyfjaiðnaðurinn þyrfti að bregðast við. Lyf eins og
valíum voru notuð til að losa konur við þunglyndi í stað þess að reynt væri
að komast fyrir ástæður þunglyndisins, sem yfirleitt mátti finna í kúgandi
félagslegum samskiptum (e. oppressive social relations). Skoðanir og hegð-
un kvenna afhjúpar þær sem annaðhvort vanþroskað afbrigði karlmanna
eða óæðra afbrigði mannkyns, samkvæmt ríkjandi hugmyndum. Í upphafi
áttunda áratugarins hófu líffræðingar og vísindaheimspekingar fjölbreyti-
legar rannsóknir sem urðu til þess að þeir snerust gegn nánast öllum full-
yrðingum um að konur væru líffræðilega óæðri körlum.
7 Ítarlegri greiningu á einu rannsóknarsviði – femíníska gagnrýni á hugmyndum sem
móta þróun stefnu og aðgerða á suðurhveli jarðar – má finna í 3. kafla bókarinnar
Objectivity and Diversity.
8 Eleanor E. Maccoby og Carol Nagy Jacklin, The Psychology of Sex Differences, Stan-
ford, CA: Stanford University Press, 1974.
STERKARi HLUTLæGNi FYRiR GRASRÓTARVÍSiNDi