Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 164
163
Gagnrýni og efasemdir
Sterk hlutlægni og aðferðir sjónarhornsfræðinnar hafa teygt sig inn á
mörg fræðasvið. Eins og bent hefur verið á hafa aðferðir sjónarhornsfræð-
innar einnig verið teknar upp sjálfstætt alls staðar þar sem baráttusamtök
fyrir félagslegu réttlæti hafa krafist þess að tekið sé mark á þeirri sérstöku
sýn sem þau hafa á heiminn. Í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu hafa
aðdáendur sjónarhornsfræðinnar jafnt sem gagnrýnendur hennar stundum
reynt að fella hana inn í þær aðferðir og þekkingarfræðilegu hugmyndir
sem þeir eru þegar kunnugir. Með því mistúlka þeir oft bæði styrk og
takmarkanir þessarar nálgunar. Hins vegar hafa gagnrýnendur tilhneig-
ingu til að setja út á sjónarhornsfræðina fyrir að byggja kenningar sínar
einmitt ekki á þeirri vísindaheimspeki sem hún hafnar. Við þetta má bæta
að ýmislegt í þeirri gagnrýni sem beint var að henni fyrstu árin er nú
talið vafasamt. Í sumum tilvikum er það nú almennt viðurkennt að gagn-
rýnendur sjónarhornsfræðinnar lýstu hugmyndum hennar á villandi hátt.
Sjónarhornsfræðingar brugðust við þessu með því að orða hugmyndir sínar
með varkárari hætti. Aðrir gagnrýnendur hafa þó vakið upp áhugaverðar
spurningar sem enn eru óútkljáðar.29 Hér á eftir mun ég taka saman helstu
efasemdir um sjónarhornsfræðina, jafnt frá andfemínistum sem femínist-
um sem aðhyllast önnur viðhorf í þekkingarfræði og vísindaheimspeki,
ásamt svörum við þessum efasemdum.30
29 Til viðbótar við safnritin tvö þar sem tekist var á við verk Dorothy Smith og Nancy
Hartsock og minnst er á hér að framan, hafa tvær lengri greiningar og gagnrýni
á sjónarhornsfræði eftir virta femíníska fræðimenn birst í Signs. Journal of Women
in Culture and Society, og báðar með viðbrögðum nokkurra af upphaflegu sjón-
arhornsfræðimannanna. (Mary Hekman, „Truth and Method. Feminist Standpoint
Theory Revisited“, Signs 2/1997, bls. 341–365; Sylvia Walby, „Against Epistemo-
logical Chasms: The Science Question in Feminism Revisited“, Signs 2/2001.) Í
nýlegu ritgerðasafni hefur verið safnað saman upprunalegu sjónarhornsfræðirit-
gerðunum ásamt ýmsum mismunandi túlkunum og gagnrýni á sjónarhornsfræði.
Sjá Sandra Harding, The Feminist Standpoint Theory Reader, New York: Routledge,
2004. Fleiri greiningar og gagnrýni má finna í ritdómum um verk sjónarhornsfræ-
ðimanna, sem og í heimspekilegum verkum um femíníska raunhyggju, t.d. Helen
E. Longino, „Feminist Standpoint Theory and the Problems of Knowledge“, Signs
1/ 1993, bls. 201–212; Elizabeth Potter, „Feminist Epistemology and Philosophy
of Science“, The Blackwell Guide to Feminist Philosophy, ritstj. L. Alcoff og E. Kittay,
Hoboken, NJ: Wiley-Blackwell, 2006, bls. 235–253.
30 Þessi umfjöllun er viðbót við þá sem má finna hjá Söndru Harding, „Rethinking
Standpoint Epistemology. What is ‘Strong Objectivity?’“, Feminist Epistemologies,
ritstj. Linda Alcoff og Elizabeth Potter, New York: Routledge, 1992.
STERKARi HLUTLæGNi FYRiR GRASRÓTARVÍSiNDi