Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 35
BREIÐFIRÐINGUR 33
Við erum ánægðari þó smátt hafí verið til að byrja með. Fyrst er
að gera smærri verkin, svo koma þau stærri á eftir“.
Svona heilræði gaf hann afi okkur börnunum. Öll voru þau af
rót hins góða sem sáði frá sér því sem geymist en gleymist ekki.
Utan úr vetrarkyrðinni barst okkur til eyrna kliður af
fuglatísti. Var þá fjárhúshaugurinn orðinn þakinn af snjó-
tittlingum, sem svangir tíndu nú úr moðinu og voru glaðir yfir
að fínna svona matborð meðan bjart var af degi. Já, á síðasta degi
ársins, það var ekki gott að vita hvenær yrði þeirranæsta máltíð.
Þetta voru fuglar himins, sem hvorki sáðu né uppskáru. Þeir
voru í ábyrgð þess sem fæðir fuglana, og ekki gleymdu þeir að
gefa guði dýrðina.
Við afi stóðum lengi og horfðum hugfangin á gleði þessara
saklausu smælingja sem tíndu sinn hátíðarmat úr moði sem
fleygt hafði verið út, og innan skamms mundi frjósa niður í
hauginn.
Nú hvarf hugur afa frá fuglunum. Hann vatt sér inn í húsin til
að gefa heyið fram á jöturnar, en sagði við mig: „Hlauptu nú
Bogga mín, og sæktu kindurnar inn fyrir gilið á meðan ég lýk við
að gefa“. „En það er svo gott veður“, sagði ég „og kindurnar
allar svo rólegar að bíta“. „Já“, sagði afi „en það er sama, hann
er svartur bakkinn í hafið og komið þungt brimhljóð við hell-
una“. Ég hljóp af stað upp tún. Fuglarnir hreyfðu sig ekki frá
sínu borði þó ég hlypi fram hjá þeim. Ég kom við í hesthúsinu
sem stóð uppi á háum hól rétt fyrir neðan túngarðinn. Þarna var
pabbi minn að undirbúa allt í hesthúsinu. Því í dag átti að taka
inn hestana sem bjargað höfðu sér fram á áramótin, en átti nú að
taka á gjöf. Pabbi var búinn að gefa hey á stallana úr heytóft, sem
var áföst hesthúsinu og innangengt í. Ennfremur var hann
búinn að útbúa ný bönd til að binda hestana með. Hver hestur
átti sinn bás. Þá var búið að setja nýsnæri í hesthúshurðina, ofan
og neðan svo hægt væri að binda hana aftur. Ég var glöð yfír öllu