Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 38
36 BREIÐFIRÐINGUR
vissi hvað hann söng. Og oftast hafði hann, gamall sjómaðurinn,
haft á réttu að standa.
Orð afa rættust. Veðrið geisaði með ofsaroki og glórulausum
byl svo ekki sást út um nokkurn glugga. Dagsbirtan dvínaði og
yfír skall kolsvart myrkur. Öðruhvoru hrikkti í þekjunni og það
sem verst var hjá okkur inni, nú fór að slá ofan í eldavélina, en
það kom aðeins fyrir í norðaustan rokum. Nú fór heldur betur
að svíða í augun af reyknum, því ekki var hægt að hleypa honum
út. Hvergi var hægt að opna hurð fyrir veðri. Allt í einu rofaði til
í baðstofunni og um leið skíðlogaði í eldavélinni. Hætti að slá
ofan í strompinn og nú hélt áfram að sjóða í saltkjötspottinum,
en það átti að vera kvöldmaturinn samkvæmt venju á
gamlárskvöld. Þá kom afi með nýja veðurlýsingu: „Nú er hann
genginn í hánorður, hætt að slá fram af Hlíðinni“. Það var þetta
sem olli ólátunum í eldavélinni. Reykurinn smádvínaði inni.
Opnað var fram í búrið og fram á ganginn.
í baðstofunni var kveikt á 14 línu lampa, sem hékk í grind
niður úr loftinu. Þegar hann var með nýpússuðu glasi bar hann
góða birtu og lýsti vel um alla baðstofuna. En frammi í
suðurenda, sem var gestastofa, var nú ljós á fallega borðlampan-
um. Þar var líka gesturinn, kennarinn stóri, Eggert Briem.
Pabbi sat þar hjá honum og spjallaði við hann.
Mamma blessuð var að þvo okkur systkinunum og færa okkur
í sparifötin áður en farið yrði að borða. Þó veðrið væri svona
vont var haldið öllum vanalegum hátíðasiðum. Dísa amma
þvoði sér og greiddi og setti upp hreina svuntu. Síðan tók hún
prjónana sína, sem hún sat oftast með á rúminu sínu og réri og
raulaði. Nú kvað hún hástöfum:
Kuldinn bítur kinnar manns,
kólnar jarðarfræið.
Ekki er heitur andinn hans
eftir sólarlagið.