Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 65
BREIÐFIRÐINGUR
63
eða tvö ár í Noregi, bæði til starfa og til þess að kynnast
búskaparháttum. Þetta kom sér vel fyrir Guðjón, þegar hann
sjálfur hóf búskap með sínum dugnaði.
Ég man fyrst eftir Guðjóni, þegar hann var að undirbúa ferð
til Stykkishólms eftir miðjan vetur. Erindið var að sækja ýmsar
nauðsynjar til búsins. Harðindi voru þá mikil. Hvammsfjörður
ísi lagður og gaddur yfir allt. Til ferðarinnar hafði Guðjón tvo
reiðingshesta, Dúsifal, fallegan rauðan hest, sem hann átti
sjálfur og bleikan hest, gæðing hinn mesta. Þriðja hestinn átti
Sigmundur afi minn á Skarfsstöðum. Var sá grár að lit, einnig
kostagripur.
Auðvitað voru allir hestarnir skaflajárnaðir. Með Guðjóni var
í ferðinni Jón Jónsson hómópati. Höfðu þeir sammælst og var
Jón með tvo hesta. I ferð þessari lenti Guðjón í miklum
erfiðleikum, en heim komst hann allslaus og þrekaður mjög. A
heimleiðinni hafði hann misst í sjóinn alla þrjá hestana með
böggum. Litlu munaði að hann færi sjálfur með. En fyrir
guðshjálp og Jóns ferðafélaga síns komst hann upp á ísskörina
allur rennblautur og kaldur. Jón hafði verið dálítið á eftir og gat
því sneitt hjá slysstaðnum. Slysið varð utarlega á Hvammsfírði,
ekki langt frá landi. Eftir nokkra hrakninga komust þeir félagar
til lands við sunnanverðan Hvammsfjörð, á Skógarströnd.
Þegar Guðjón kom heim var hann mjög illa farinn, bæði á
líkama og sál. Hann lá um tíma í umsjá fóstru minnar, sem sýndi
sína miklu móðurhlýju og ástúð eins og hennar var von og vísa.
En faðir hans tók þessari óhamingju ekki eins vel, enda var oft
heldur stirt með þeim feðgum. Föður hans þótti Guðjón veraof
mikið að heiman og ekki hjálpa sér nóg við búskapinn. En
Guðjón var framsýnn og vildi læra sér til gagns nýja siði. Hann
var um þetta leyti nýkominn frá Noregi, þar sem hann hafði
kynnst ýmsum nýjungum og framförum, er hann notfærði sér
síðar með miklum dugnaði og sóma.