Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 68
66
BREIÐFIRÐINGUR
Sauðhúsum. Þarna voru nóg verkefni að sauma bæði á konur og
karla úr fínum útlendum efnum. Þótti það þá mikið afrek í
sveitinni. En því miður var heilsa Sigríðar ekki traust. Varðhún
því fljótlega að minnka við sig í saumaskapnum.
Eg á margar hlýjar og ánægjulegar minningar frá bernsku- og
æskuárunum á Kýrunnarstöðum. Einn sérstaklega ánægjulegan
dag vil ég nefna undir lok þessara minninga minna. Þann 5. júlí
1908 áttu fósturforeldrar mínir gullbrúðkaupsafmæli. Var þá
mikið um að vera heima. Fjöldi fólks af Fellsströnd, úr
Laxárdal, og úr Hvammssveit heiðraði gömlu hjónin með því að
heimsækja þau á þessum heiðursdegi þeirra.
Öllum var boðið til veislu Ræður voru fluttar, Ásgeiri færður
silfurbúinn stafur og Þuríði gullhringur. Einnig voru þeim flutt
tvö frumort afmælisljóð, sem höfðu verið prentuð. Sólskin og
blíða var allan þennan dag. Við drengirnir á heimilinu tókum
við hestum gestanna og gættum þeirra allan daginn.
Fósturforeldrar mínir luku svo starfi sínu með því að koma
mér í kristinna manna tölu. Eg var fermdur í Hvammi á annan í
hvítasunnu árið 1911.1 fermingargjöf fékk ég ný föt og skó, enn
fremur nýjan hnakk með öllu tilheyrandi. Næsta dag var ég
sóttur frá Kambsnesi í Laxárdal. Þar var ég ráðinn vinnumaður
í 1 ár. Þar með kvaddi ég æskuheimili mitt, og eiginlega byrjuðu
þá fullorðinsárin, þótt ég væri þá aðeins 14 ára.
Þetta sama vor hættu þau Ásgeir og Þuríður búskap, enda
voru þau bæði orðin lasburða. Um sumarið fór heilsu Þuríðar
mjög hrakandi. Hún andaðist 30. september 1911, 77 ára að
aldri. Ásgeir var nú hjá syni sínum og tengdadóttur, sem
reyndust honum bæði góð og nærgætin. Hann dó 8. nóvember
árið 1915, 84 ára gamall.
Eg þakka þessum gömlu heiðurshjónum fyrir allt hið mikla og
góða, sem þau gerðu fyrir mig - og veganestið, sem þau gáfu
mér. Það hefur reynst mér vel á ævibrautinni.