Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 69
Sigurborg Eyjólfsdóttir frá Dröngum
Æskuminningar
Ég er fædd 1. júní 1906 að Dröngum á Skógarströnd, dóttir
Eyjólfs bónda þar Stefánssonar og síðari konu hans Jensínu
Kristínar Jónsdóttur. Hann var áður giftur Sigríði
Friðriksdóttur, en missti hana frá fjórum ungum dætrum. Aður
höfðu þau misst þrjá syni unga. Með móður minni eignaðist
hann einnig sjö börn, fimm komust til fullorðinsára. Dreng
eignuðust þau er fæddist andvana, og stúlku, sem Ragnheiður
hét og dó á fyrsta ári. Ég held að mínar fyrstu
bernskuminningar, sem þó eru óljósar, séu tengdar andláti
þessarar einu alsystur minnar.
En ljóslifandi geymi ég ljúfar minningar frá kyrrlátum
kvöldstundum, er mamma las með okkur börnunum faðirvorið
og ótal vers, en það gerði hún um leið og við gátum talað. Oft hef
ég hugsað um það síðar, að aldrei var hún svo þreytt að hún læsi
ekki með hverju einu barni í senn, á meðan þau voru lítil, en
líklega hefur henni fundizt það persónulegra heldur en ef við
hefðum lesið það öll saman. A kvöldin batt hvert barn fötin sín í
böggul, þá ruglaðist ekkert að morgni. Ekki þurfti ég að óttast að
fötin mín krumpuðust, því að þau voru öll úr vaðmáli eða
prjónuð, engar skrautflíkur, en snyrtilegar, hlýjar og góðar.
Sunnudaga- og spariföt áttum við alltaf, þau voru af fínni gerð.
Svo var keppzt við að klæða sig, til að vita, hver yrði fyrstur á
fætur. Þá bað mamma með okkur faðirvorið og venjulega tvö
vers, nú er ég klæddur og kominn á ról og vertu guð faðir, faðir