Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 81
BREIÐFIRÐINGUR
79
fengum við góðar viðtökur að vanda. En eitthvert bros fannst
mér ég greina á andliti húsbóndans. Ætli honum hafi ekki
fundizt ferðalag okkar eitthvað grunsamlegt? En varla vorum
við setzt, er Jóhanna, systir okkar birtist í dyrunum. Hafði hún
verið send til að leita okkar. Hún sagði að við ættum að koma
strax, það ætti að flengja okkur. Þetta fundust okkur váleg
tíðindi, og við vissum að þau voru sönn, því þá voru flengingar í
tízku. Er heim kom, fórum við fyrst inn í baðstofu, þar sem
fólkið var við vinnu sína, en enginn leit við okkur, hvað þá að
okkur væri fagnað sem hetjum úr helju heimtum. Já, svona var
nú heimurinn þá.
Þar sem við sáum að engar bumbur yrðu barðar okkur til
heiðurs, fórum við inn í hjónaherbergið, skriðum þar inn í skot,
og biðum átekta. Biðin var löng og skelfíleg. Loks heyrðum við
fótatak pabba. Nú skyldi réttlætinu fullnægt. Hann flengdi
okkur bæði. Það var ansi sárt, en hvað er að tala um tízkuna, hún
hefur margan leikið grátt. En þarna leið bróðir minn saklaus
fyrir mig seka.
í annað sinn gerðist það, að ég svaf frammi í baðstofu og lítill
bróðir minn hjá mér. Er allir voru háttaðir, tekur hann að nöldra
um að hann vilji fá brauð. Eitthvert ónæði hefur þetta gert, því
faðir okkar kom nokkuð stórstígur og flengdi okkur bæði, án
dóms og laga. Svona réttarfar gleymist ekki, en hefur tekið á sig
broslega mynd, án allrar beiskju. Pabbi hafði bráða lund, en
gekk aldrei lengi með þykkju. Hann vildi hvers manns vanda
leysa, sást þá stundum lítt fyrir, ef kallið kom að flytja fólk eða
gera við símalínu, sem bilað hafði í óveðri, að ég tali ekki um ef
sækja þurfti lækni. Hann hugsaði hlýtt til allra manna, en hið
broslega í tilverunni fór þó ekki fram hjá honum, það varð til
þess að stytta honum og þeim, sem með honum voru, marga
dapra stund.
Jens á Hálsi, sá er basla mátti með mig og kúna um hávetur,