Breiðfirðingur - 01.04.1982, Síða 83
81
BREIÐFIRÐINGUR
til að slá og bíta. En ef litlu bræðurnir mínir, sem varla náðu upp
á hálsinn á henni, gengu að henni, sem virtist nokkur vogun, þá
stóð hún kyrr eins og þúfa. Svo héldu þeir um hálsinn á henni,
og þá mátti hver sem var beizla hana. Aldrei sýndi hún hrekki,
svo lengi sem hún bar beizli. En er hún skyldi höndluð næst,
byrjaði sami ballettinn, með tilheyrandi rassaköstum. Með
þessum skyndiverkföllum leysti hún sjálfa sig oft frá störfum,
varð því feit og frúarleg. Mér fannst alltaf að Grána og Fífill
væru hjón, svo ólík sem kjör þeirra annars voru.
Pabbi keypti brúna meri frá Arnarbæli á Fellsströnd. Eitt
sinn var hann að flytja Brúnku, ásamt fleiri hestum út í eyjar.
Beizlistaumarnir voru bundnir í þófturnar. Veit þá engin fyrr til
en Brúnka rykkir í tauminn, slítur sig lausa, slær tvær tennur úr
öðrum hesti, um leið og hún kastar sér í sjóinn, og syndir í burtu.
Þannig synti hún út á Hvammsfjörð með öllum hans straumum
og stórri röst, hafði skamma viðdvöl á eyjum, sem á leið hennar
urðu, og komst að lokum út í Kjóeyjar, sem er býsna löng leið.
Það eru fleiri en menn, sem þrá æskustöðvarnar. Hefði þetta
verið veturinn 1918, hefði Brúnka getað gengið þurrum fótum
yfir fjörðinn, þá var hann allagður og leiðin út í Stykkishólm
einnig. Þeir sem þekkja straumana Kolkistung og Geiteying,
sem eru á leiðinni út í Stykkishólm frá Dröngum, hljóta að
undrast að einnig þeir skyldu láta leggja sig í klakabönd.
Geiteyingur liggur milli tveggja eyja í þröngu sundi. Það bullar í
honum, eins og í grautarpotti, hann myndar hringiður, og er
mjög harður stundum, eftir því hvernig á sjávarföllum stendur.
r
Þar átti pabbi oft leið um í svarta myrki, sem um bjartan dag. Eg
minnist margra dimmra kvölda er mamma fór út og við börnin
eltum hana. Þá var hún að hlusta eftir áraskrölti, og ef það
heyrðist, var nú ketillinn settur yfir, því kuldaleg voru þessi
vetrarferðalög, og þörf var á kaffisopa, þegar klakadrönglarnir
höfðu verið þíddir úr skegginu. Það geislaði af pabba bæði gleði