Breiðfirðingur - 01.04.1982, Síða 95
BREIÐFIRÐINGUR
93
Þú lyndisþýða litla nafna mín
ert líkt og fagurt blóm á sumardegi,
er móti sólu sættbrosandi skín
og safnar yl, en kuldans væntir eigi.
Eins er æskan ekki kvíðagjörn
hún á sér vonir, blíðu, fjör og mildi.
Hún hugsar lítt, hve veik er hennar vörn
ef vindar lífsins næða fyrr en skyldi.
Þér gefi Drottinn gæfu alla tíð,
gleði lífs og ævi hlýja daga.
Að aldrei fölni hjartans blóm þín blíð
og björt þín verði og fögur ævisaga.
Ég vona að enginn misskilji mig svo hrapalega, að halda að ég
birti þessi ljóð í því skyni, að láta líta svo út að ég hafi verið
eitthvert afbragð annarra barna. Það var nú svo langt frá því. En
mér þykir gaman að rifja upp, hve ljóðin lágu mörgum léttilega á
tungu, og liggja það vissulega sumum enn. Þetta ofhól, sem er í
vísunum vona ég að allir skilji, þegar lítið barn á í hlut.
Eitt vor vakti ég yfir túninu. Þá hef ég líklega verið átta til níu
ára. A kvöldin fór ég upp á Drangann og hóaði og sigaði
hundunum á það fé og hesta, sem næst voru og líklegust til að
stelast í túnið. Því næst fór ég heim og settist við glugga, þar sem
ég gat fylgzt með skepnunum, sem komu í túnið. Ég gat lesið
mér til skemmtunar. Helzt var það barnablaðið Æskan, sem
Sigríður, systir mín lánaði mér. Ég kann enn þrjú erindi úr
þessu blaði, þau eru svona:
Litla liljan hvíta
lauk upp blöðum smá
ljós hún vildi líta
líf og vökvun himnum frá.