Breiðfirðingur - 01.04.1982, Side 101
BREIÐFIRÐINGUR
99
góðleikinn skein úr andlitum þeirra, er þeir réttu hver öðrum
baukinn. Ég man aðeins eftir góðu fólki á Skógarströnd. Ég
reika um kirkjugarðinn á Breiðabólsstað. Þar hvíla nú bein
þeirra margra, en andinn er farinn til Guðs, sem gaf hann.
Blessuð gamla kirkjan, sem svo margar minningar voru tengdar,
er brunnin, en önnur er risin á grunni hennar, fyrir tilstilli góðra
manna. Ég hefði átt erfitt með að hugsa mér Breiðabólsstað án
kirkju.
Þetta er orðið langt mál um lítið efni, og er engum ljósara en
mér sjálfri, hve þetta er af miklum vanefnum gert. Ég var aðeins
minnsti hlekkurinn í keðju fjölskyldunnar, sá hlekkurinn sem
sjálfsagt hefði brostið fyrst, ef á hann hefði reynt. Engir
stóratburðir gerðust í lífi mínu fyrstu fjórtán árin, en þó man ég
þau betur en öll hin, sem á eftir komu. Engir tveir menn sjá sama
hlutinn eins. Svona leit lífið út frá mínum sjónarhóli séð, með
augum barnsins.
Ekki er lífíð léttur dans á rósum,
né lag við texta er við oss frekast kjósum.
Þó er gjöf frá Guði að fá að lifa,
í gestabók á jörð sitt nafn að skrifa.
Því ekki stungu alltaf sárir þyrnar,
og aldrei voru læstar náðardyrnar,
sterk var hönd, er stýrði litlu fleyi,
í stórsjó tímans, svo það færist eigi.