Breiðfirðingur - 01.04.1982, Side 157
BREIÐFIRÐINGUR 155
og nam staðar á hæðinni hinumegin. Þegar ég loks komst til hans
sá ég að hann gekk upp og niður af mæði. Varð mér fyrst fyrir að
gá hvort allir fæturnir væru undir honum. Jú, það var ekki
annað að sjá. Hann stóð í þá alla en blóð mátti sjá á tveimur
stöðum á öðrum afturfæti. Hann hafði rifið sig í urðinni. Eftir að
við höfðum stansað þarna á hæðinni fór ég að binda saman
beislistauminn, svo lötruðum við af stað niður götutroðninginn
sem lá niður á Rögnvaldarvíkurbakkana.
Eg hef víst verið orðin hálf utan við mig og sljó, því allt í einu
kippti Hrotti í tauminn, stansaði, og rak upp hátt og kraftmikið
hnegg. Hrökk ég við, og leit í kringum mig. Sá ég þá hvar maður
kom ríðandi og fór geyst. Ég þekkti strax þó dimmt væri orðið að
þetta var pabbi, ríðandi á Jarp, sem var aðalreiðhesturinn á
bænum. Var hann fegnari en frá megi segja að sjáokkur Hrotta.
Allir voru auðvitað orðnir hræddir um mig heima. Pabbi
hafði farið þennan dag til Ólafsvíkur að sækja matvöru fyrir
heimilið. Er hann kom heim, og ég var ekki komin fór hann strax
að leita mín. Pabbi spurði mig spjörunum úr. Ég sagði honum
undan og ofan af um ferð mína, og minntist lítið á Höfðann. Nú
héldum við heim að Mávahlíð, og var það síðasti áfanginn hjá
mér á þessum viðburðaríka degi. Þegar heim kom stóðu allir úti
á hlaði og fögnuðu mér innilega. Ég man alltaf hvað yndislegt
var að koma heim og njóta hlýjunnar hennar mömmu. Gleymd
var öll þreyta og hungur. Pabbi kom Hrotta í hesthúsið að
töðustalli. Ég fór úr mestu bleytunni fyrir utan dyr, en þákom í
ljós að gúmmískórnir voru botnlausir og sokkarnir líka. Skeinur
voru á báðum fótum, og hölt var ég næstu daga, og það var
Hrotti líka. Hann var með sár á öðrum afturfæti.
Kaunin okkar Hrotta gréru fljótt. Nokkrum dögum seinna
kom hreppstjóri sveitarinnar og fékk pabba með sér til að ryðja
Höfðann. Þegar þeir komu heim um kvöldið var mikið um það
rætt hvernig við Hrotti hefðum komist lifandi yfir torfærurnar.