Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Qupperneq 36
M a t t h í a s J o h a n n e s s e n
36 TMM 2009 · 4
III
„Tæknin er orðin svo fullkomin á Morgunblaðinu að við getum ekki gefið út auka-
blað!“
17. júní 2000, laugardagur
Gott veður. Gekk frá Elliðaánum niður í Skógræktarstöð, þangað sótti
Hanna mig. Fór í gott steypibað, hlustaði síðan á Fyrstu ástina eftir Turge-
nev. Flott saga. Ég er sammála Ingólfi syni mínum um það að rússneskir
rithöfundar hafa meira innsæi í sálarlíf persóna sinna en aðrir höfundar.
Undir lok sögunnar reið yfir landskjálfti sem mér skilst hafi verið 5–6 á
Richter. Upptök hans voru að ég held í Fljótshlíð, eða við Hvolsvöll. Enn
er óvíst hvort um Suðurlandsskjálftann er að ræða, en þegar þetta er skrif-
að hafa bæði Ölfusárbrú og Þjórsárbrú verið lokaðar. Verulegar skemmd-
ir eru sumstaðar á vegum, lítið vitað um skemmdir á húsum.
Uppúr klukkan hálffimm var staðfest af sérfræðingum Veðurstof-
unnar að upptökin hefðu verið í Holtunum, mesti skjálftinn hefði verið
5,5–6 á Richter og ef þetta væri Suðurlandsskjálftinn yrðu menn að vera
undir það búnir að ný kviða gæti komið í kjölfarið.
Ég lá útaf og hlustaði á spóluna þegar Hanna sagði, Jarðskjálfti! Ég
lagði frá mér heyrnartólið og fann titring. Að honum loknum varð
örstutt hlé, en þá kom hörkujarðskjálfti og húsið lék á reiðiskjálfi. Ein-
hvern veginn fann ég ekki til neinnar hræðslu, ég veit ekki af hverju, við
biðum bara næstu hrinu. Í kjölfarið kom örstuttur titringur. Við fylgd-
umst síðan með frásögn Ríkisútvarpsins af þessum hamförum og fest-
um hugann við þær fregnir austan úr sveitum, að ekki væri vitað til að
neinn hefði orðið sár af þessum sökum. Stórbrýrnar eru víst laskaðar og
betra að fara varlega.
Þannig er þetta land, það hristir sig eins og ljón eða tígrisdýr og að
sjálfsögðu án nokkurs fyrirvara. Það er svo sannarlega ekkert gæludýr
eins og margir virðast halda. Fleiri kippir geta verið yfirvofandi og svo
kemur Katla einn góðan veðurdag og þá er betra að vera ekki á flóða-
svæðum hennar.
En hvað sem þessu líður, þá ætla ég að ljúka við Fyrstu ástina. Þar eru
líka hamfarir, en þær gerast í sálarlífi persónanna, eins og venja er þegar
stórskáldin rússnesku taka til hendi og semja sínar njálur. Þá getur
ýmislegt gerzt og hætt við að ýmsir verði fyrir grjóthruni. En þetta hefur
verið eftirminnileg þjóðhátíðarhrina; sterk áminning um það, hvar við
eigum heima. Og eitt er víst: náttúran er ekki í sparifötunum, þótt fjall-
konan skauti sínu fegursta.
TMM_4_2009.indd 36 11/5/09 10:12:58 AM