Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Side 59
I n n r i þ r o s k i , í m y n d o g s a m f é l a g s s á t t m á l i
TMM 2009 · 4 59
mynd eða ímynd að ræða sem víðtæk sátt ríkti um, sem fólki reyndist
erfitt að mótmæla, sem tönnlast var á í tíma og ótíma og byggt á í
skýrslum á borð við Ímyndarskýrslu forsætisráðuneytisins og sömuleið-
is í ýmsum skýrslum opinberra aðila. Hér má t.d. nefna skýrslu Við-
skiptaráðs frá 2006 þar sem fram kemur ákveðin framtíðarsýn um
Ísland. Eins mætti nefna hugarflugs- og stefnumótunarfund Vísinda- og
tækniráðs þar sem spáð var um þróun í vísindum og tækni fram til 2015
og gert ráð fyrir að á flestum sviðum yrði Ísland í fremstu röð, og myndi
skara fram úr á nokkrum sviðum.8 Allt byggist þetta á samfélagssátt-
mála í þeim skilningi að tiltekin viðhorf, reynsla og skoðanir meðal
Íslendinga séu um leið orsök velgengni þeirra. Annað dæmi um þetta
viðhorf birtist í kvikmyndinni Gargandi snilld þar sem reynt var að
útskýra margvíslegan árangur Íslendinga á tónlistarsviðinu með því að
ýmis atriði í sögu þjóðarinnar hefðu stuðlað að þeim frábæru eiginleik-
um sem gerðu að verkum að hún ætti nú fjölmarga snillinga á sviði
tónlistar. Fleira mætti nefna, þar á meðal ræður forseta Íslands á inn-
lendum og erlendum vettvangi.
Það kann að vera að það þyki ekki við hæfi að halda því fram nú,
þegar allt er hrunið, að ríkt hafi samfélagssáttmáli um allan þann hugar-
burð sem einkenndi góðæristímann. Ég er þó ansi hræddur um að
margvísleg gögn góðærisins séu órækur vitnisburður um slíkan sátt-
mála. Fjölmiðlar, einstaklingar, fyrirtæki og opinberar stofnanir reyndu
að laga sig að þeim veruleika sem bakland auðæfanna skapaði.
Sá veruleiki fékk að vera í friði vegna þess að fólk vildi helst ekkert
heyra um að mögulega væri hann reistur á tálsýn um að vöxtur fjár-
magnsmarkaðanna væri endalaus og því yrði alltaf það fjármagn á boð-
stólum sem nauðsynlegt væri til að halda hinni glæsilegu yfirbyggingu
uppi. En staðreyndin er sú að það ríkti víðtæk sátt um góðærið og
dásemdir þess. Kannski var hún jafnvel 71.122 á móti 377 eins og sáttin
um stofnun lýðveldis á Íslandi fyrir 65 árum.
Kannski er erfitt fyrir þá sem nú berjast mest á móti því að Ísland
gangist í ábyrgð fyrir Icesave-skuldunum að fallast á þessa lýsingu á
góðærinu. Það er auðveldara að líta svo á að hrunið mikla sé afleiðing
þess að gráðugir fjármálamenn léku lausum hala og steyptu ríkinu í
þessa hít án þess að nokkur uggði að sér. Það er fjarri því að ég vilji gera
lítið úr ábyrgð gerendanna í málinu, en öll ábyrgð á hruninu er þó mun
flóknari hlutur en svo að hægt sé að finna sökudólga og hengja þá. Það
er sjálfsblekking að ímynda sér að hin samfélagslega klikkun góðærisins
sem kom einfaldlega í veg fyrir heilbrigða gagnrýni og eftirlit sé ekki
þegar á heildina er litið ástæðan fyrir því hvernig fór. Og sé þannig litið
TMM_4_2009.indd 59 11/4/09 5:44:39 PM