Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Side 62
62 TMM 2009 · 4
Kristín Eiríksdóttir
Bakvið fossinn
Það versta er liðið, hugsar maðurinn oft til þess að róa taugarnar þegar
hann liggur á einbreiðu rúmi sínu og dagurinn gerist utan við þykkar
léreftsgardínur. Þegar næturvaktinni er lokið og hann liggur loksins í
rúminu sínu, sem hann hefur þráð svo lengi. En taugarnar eru þandar.
Hugurinn leikur sér að honum, stjórnlaus og stór, miklu stærri en
maðurinn sjálfur og hugurinn ræður ríkjum í smáu lífi mannsins.
Það versta er liðið, hugsar hann, nokkuð sem hann getur með engu
móti vitað.
Maðurinn er fjörutíu og fimm ára gamall. Í fjörutíu og fimm ár hefur
hold hans ráfað um jörðina, það hefur stækkað og minnkað, gildnað og
grennst utan um stífnandi beinagrindina og augun sem stöðugt halda
áfram að horfa, svona sakleysislega og svolítið sár úr umgjörð sinni.
Í fyrstu lærði maðurinn heil ósköp. Hann lærði að ganga og tala, hirða
um sig sjálfur, afla sér matar og þess sem hann þurfti, gekk í skóla þar
til honum fannst komið nóg, gifti sig annarri sál og fjölgaði sér með
henni, bjó til barn.
Svo hafði hann skilið sig frá konunni, yfirgefið barnið og haldið áfram
einsamall. Frá skilnaðinum voru liðin tíu ár, sem maðurinn hafði notað
sumpart til að læra meira. Hann sótti um störf og vonaði eitthvað óljóst
sem aldrei varð að neinu því óljóst er ekki nóg fyrir örlögin að vinna úr.
Herbergið með rúminu einbreiða, þar sem maðurinn liggur á morgn-
ana og þjáist af vanafestu, er staðsett í blokkaríbúð í úthverfi ónefndrar
borgar. Á veggjunum fjórum hanga kvikmyndaplaköt, á hillusamstæðu
úr svörtum plasthúðuðum spóni sitja dvd-diskar, spilari og sjónvarp. Á
gólfinu er haugur af fötum mannsins sem hann hefur aldrei lært að raða
af virðingu í klæðaskáp.
Þegar maðurinn vaknar um fjögurleytið síðdegis fær hann sér að
TMM_4_2009.indd 62 11/4/09 5:44:39 PM