Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Page 81
TMM 2009 · 4 81
Þorsteinn Antonsson
Um hughvörf á höfundarferli
Elías Mar rithöfundur (1924–2007) eftirlét Landsbókasafni Íslands
mikið af rituðum gögnum frá höfundarferli sínum. Þar á meðal eru
heimildir um skipti hans og útgefanda hans, Ragnars Jónssonar í Smára,
á sjötta áratug síðustu aldar sem gerðar verða að umtalsefni með þessari
samantekt. Fjórar skáldsögur Elíasar komu út hjá bókaútgáfunni Helga-
felli á vegum Ragnars á árunum 1946 til 1959. Mönnum hefur sýnst sem
svo, að orðið hafi afdrifarík sinnaskipti hjá Elíasi eftir útkomu Sóleyjar-
sögu 1959, þegar höfundurinn var hálffertugur. Með þeim gögnum sem
nú liggja fyrir er hægt að varpa ljósi á það úrlausnarefni þótt kunni að
vera að málefnið verði ekki tæmt að sinni.
Veturinn 1949–50 var Elías við bókmenntanám í University College í
London. Hann hafði hafið námið nokkru fyrir áramótin. Þá hafði
Ragnar Jónsson gefið út tvær skáldsögur hans, Eftir örstuttan leik 1946
og Man eg þig löngum 1949. Þriðja skáldsaga Elíasar lá tilbúin til útgáfu
hjá Helgafelli og kom út haustið 1950. Hið mikla rit hans Sóleyjarsaga
kom út í tveimur hlutum hjá sama útgefanda, 1954 og 1959. En eftir það
komu út eftir sama höfund aðeins ein smásagnabók og þrjár ljóðabækur
uns höfundurinn lést 2007. Önnur forlög sáu um þær útgáfur.
Þann 14. janúar 1950 var komið að Elíasi að greiða skólagjöldin við
hinn enska skóla. Hann hafði fengið heimild til gjaldeyrisyfirfærslu sem
nauðsynlegt var á þessum tíma ef breyta átti íslenskum peningum í
erlenda en var blankur. Hann ritaði Ragnari bréf með þessari dagsetn-
ingu og mæltist kurteislega til þess að Ragnar borgaði sér fyrir skáldsög-
una óbirtu, Vögguvísu, sem hann gerði ráð fyrir að Ragnar gæfi út, enda
taldi hann Ragnar útgefanda sinn. Þá hafði Vögguvísa legið hjá útgáf-
unni í handriti frá því í nóvember árið áður og ósvarað var um útgáfuna.
Ragnar svaraði ekki bréfinu. Elías ítrekaði bón sína með bréfi 15. apríl.
Nokkrum dögum síðar, fyrsta sumardag, svaraði Ragnar með eftirfar-
andi bréfi:
TMM_4_2009.indd 81 11/4/09 5:44:41 PM