Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Page 96
J ó h a n n Þ ó r s s o n
96 TMM 2009 · 4
Olían er köld á höndunum. Þórður nuddar granna fótleggina og
hvíslar, heyrir sjálfur en skilur ekki. Hann nuddar lærin innanverð,
aftanverð, hnésbætur, kálfa, iljar, tær. Hann nuddar fæturna, leitar að
lífinu sem lék um þá, en finnur það ekki. Sér ekki að lífið eltir hann.
Fæturnir verða kvikir í kjölfar handanna, en ekki að honum sjáandi.
Þórður snýr sér undan og gengur inn á bað. Olían næst illa af, loðir
við hendurnar og hefur betur gegn sápunni. Hendurnar verða rauðar af
átakinu, rauðar af þvættinum sem nær ekki olíunni af. Hann gefst loks
upp, gefst upp á öllu, hættir að berjast á móti þyngaraflinu og sest á
gólfið með höfuðið á milli hnjánna.
Sængin rennur hljóðlaust af rúminu. Það heyrist brak í myrkrinu, en
berst ekki inn á baðherbergið, kemst ekki þangað í gegnum myrkrið.
Hún man ekki alveg hvernig þetta er gert, hvernig á að fá alla þessa
vöðva til að hlýða. En það kemur.
TMM_4_2009.indd 96 11/4/09 5:44:42 PM