Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 2
2 TMM 2015 · 1
Frá ritstjóra
Þegar Einar Bragi skáld lést árið 2005 skildi hann eftir á skrifborðinu sínu
tvö frágengin ljóð sem birtast hér með góðfúslegu leyfi Borghildar dóttur
hans. Eins og þau sem þekkja ljóð Einars vita var hann stundum árum
saman með ljóð sín í smíðum, og átti það til að birta ýmsar gerðir af þeim í
áranna rás. Fyrir kom að hann tengdi ljóð sín við tiltekna dagsetningu sem
hafði einhverja merkingu í huga hans, eins og ljóðið Haustljóð á vori er ef
til vill frægasta dæmið um, en það var upphaflega tengt árinu 1951 og komu
bandaríska hersins til langdvalar á Íslandi. Til er eldri gerð ljóðsins Fuglamál
með dagsetningunni 1. nóvember 2004, en það var dánardægur Kristínar
Jónsdóttur konu Einars. Slík vitneskja er þó ekki forsenda fyrir endanlegum
skilningi á þessu fagra ljóði.
Álfrún Gunnlaugsdóttir er í efnisríku og skemmtilegu viðtali við Kristínu
Ómarsdóttur; Ana Stanicevic skrifar um Mánastein í ljósi expressjónismans
og þá einkum mynda norska málarans Edvards Munch og Kjartan Már
Ómarsson skrifar um húsameistara ríkisins í þrjátíu ár, Guðjón Samúelsson
og verk hans. Aðalsteinn Ingólfsson birtir hér líka svar meistara Þórbergs við
málaleitan Nínu Tryggvadóttur málara um að skrifa fyrir hana í sýningar-
skrá. Þar segir Þórbergur meðal annars:
„Ég held skáld og listamenn ættu að taka sér Sköpuðinn mikla til fyrir-
myndar. Samtímis og hann skapar flatar sléttur í ýmis konar litaskrauti,
skapar hann rismikil fjöll og hlýlega dali, samtímis mönnum með tvö göt á
nefi, skapar hann álfa með eitt nasagat, samtímis fljúgandi fuglum, skríðandi
orma, samtímis hlaupandi hestum syndandi fiska, samtímis reykögn í lofti,
skínandi sólir og þannig endalaust …“
Guðmundur Andri Thorsson