Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 36
A n a S t a n i c e v i c
36 TMM 2015 · 1
Í fyrstu skáldsögu Sjóns, Stálnótt (1987), brunar Johnny Triumph (Jón Sigur, Sigur-
jón) upp af sjávarbotni og í annarri skáldsögu sinni, Engill, pípuhattur og jarðarber
(1989) var hann skuggi aðalsöguhetjunnar. Í Augu þín sáu mig er nærvera höfundar
ekki eins sýnileg, en hinsvegar er lögð áhersla á áðurnefnda þátttöku sögumanns
eða söguhöfundar.33
Þetta einkenni finnum við líka í Mánasteini. Það er sláandi líking milli
kynningar Johnny Triumph og Sólu Guðb-. Johnny Triumph kemur akandi
upp af sjávarbotni „langur og grannur, […] [með] brún sólgleraugu […]
klæddur svörtum jakkafötum og þvældri blúnduskyrtu […] og skórnir úr
leðri, sígildir og támjóir.“34 Sóla Guðb- „birtist á klettabrúninni líkt og gyðja
risin úr dýpstu hafdjúpum […] klædd svörtum leðursamfestingi […] með
svarta hanska á höndum, kúptan hjálm á höfði, hlífðargleraugu og svartan
trefil fyrir vitum“ (bls. 12). Í lok sögunnar þegar Máni Steinn fer aftur til
Reykjavíkur og gengur framhjá húsi Sólu Guðb- „stendur gljábónað Triumph
Model-Q“ utan í skúrveggnum (bls. 125). Sjón leikur sér aftur með nafn sitt
og setur sig í samband við Sólu.
Sjón hefur sagt að hann væri sjálfur líkastur Mána Steini35 og það
kemur ekki á óvart, af því að Máni hefur fyrst og fremst mikinn áhuga á
kvikmyndum eins og rithöfundurinn. En Sjón gefur nærveru sína líka í
skyn með smáatriðum. Hann minnir á sig þegar hann lætur Mána Stein
fá „röntgensjón“ til að sjá Sólu Guðb- eins og hún raunverulega er (bls. 13).
Þetta er líka tilvísun í ljóðasafn Sjóns, Drengurinn með röntgenaugun (1986).
Sjón fléttar nafn sitt inn í verkin og leikur sér með augna-minni sem er
sígilt hjá honum eins og Úlfhildur hefur bent á.36 Ennfremur á Máni Steinn
afmæli tuttugastaogþriðja apríl (bls. 95), en þetta er líka afmælisdagur Hall-
dórs Laxness, afmælis- og dánardagur Williams Shakespeare, dánardagur
Miguels de Cervantes og alþjóðlegur dagur bókarinnar. Einu sinni enn vísar
Sjón, rithöfundur og skáld, til sín með tilvísun í aðra fræga rithöfunda og dag
bókarinnar og um leið sýnir hann tengsl sín við Mána Stein. ExpresSJÓN-
istinn í honum málar sig inn í verkin.
1.9 Lokaorð
Samanburðinum við Edvard Munch, sem hér hefur verið lögð áhersla á, er
ekki ætlað að gefa til kynna að Sjón hafi verið innblásinn af Munch eða haft
málverkin hans fyrir framan sig á meðan hann skrifaði Mánastein. Það er
reyndar ekki óhugsandi, ef tekið er tillit til þeirrar ítarlegu rannsóknarvinnu
sem Sjón leggur á sig áður en hann skrifar skáldsögurnar sínar. Hvort það
sé tilfellið hér eða ekki, skiptir litlu máli í samhengi ritgerðarinnar. Ég hef
tekið dæmi af málverkum Munchs til að sýna hvernig skáldsagan mótast
af listbrögðum expressjónískra málverka. Það vottar fyrir ópi og tilvistar-
kvíða í gegnum alla söguna. Notkun skugga sem haga sér eins og sjálfstæðar
persónur er greinileg, bæði í Mánasteini og málverkum Munchs. Það er