Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 12
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
12 TMM 2015 · 1
Kristín: Hvað finnst þér um orðið skáldkona? Ert þú skáldkona?
Álfrún: Mér finnst allt í lagi með orðið, það væri náttúrlega hægt að segja
skáld og ekkert annað, og er kannski best við hæfi, en ég sé í raun og veru
ekkert athugavert við orðið skáldkona. En myndi hins vegar hlæja að orðinu
skáldmaður.
***
Kristín: Eftir langa dvöl á Spáni fluttir þú til Sviss. Hvernig var að búa í
Sviss?
Álfrún: Þegar ég var búin með háskólanámið á Spáni fór ég til Sviss til að
skrifa doktorsritgerð. Þar var mjög gott bókasafn fyrir miðaldabókmenntir
og Svisslendingar voru fljótir að nýta sér alla nýjustu tækni. Ég féll í stafi yfir
því að þurfa aðeins að bíða í nokkra daga eftir að fá bók lánaða úr erlendum
söfnum, en bæði hér og á Spáni tók það margar vikur. Í tæknimálum voru
Svisslendingar nútímalegir eins og við en við vorum ekki eins langt komin í
bókasafnsmálum og þeir. Svissneska ríkið veitti ýmsum erlendum stúdentum
styrki svo þeir gætu bætt ofan á nám sitt og ég var einn styrkþeganna. Ég bjó
í Lausanne, í franska hlutanum, um 60 km frá Genf. Fegurðin er mikil í
landinu en maður er svolítið innilokaður milli þessara hrikalegu fjalla. Þetta
er harðbýlt land í raun og veru enda voru Svisslendingar fátækir lengi vel og
ungir karlmenn urðu að leita til annarra landa eftir vinnu ef þeir ætluðu að
gifta sig, til að afla sér tekna. Þeir gerðust oft málaliðar. Þannig myndaðist
sú hefð, sem enn er við lýði, að Svisslendingar standi vörð í Páfagarði. Svo
vænkaðist hagurinn þegar þeir fóru að búa til úr og klukkur. En eins og ég
sagði, landið er harðgert og lítið undirlendi fyrir landbúnað eins og hann
var stundaður hér áður fyrr. Þegar ég kom þangað voru Svisslendingar vel
auðugir með alla sína banka og bankastarfsemi.
Kristín: Lýsingin er ævintýraleg, þetta hafa verið ólíkir staðir: Sviss og
Spánn á þessum árum. Þú dvelur rúmlega ellefu ár í útlöndum, kemur
heim, verður lektor í bókmenntum við Háskóla Íslands. Hvernig kom þér
þá lífið á Íslandi fyrir sjónir?
Álfrún: Ég kom alkomin heim vorið 1971 en fór frá Sviss til Spánar
í desembermánuði 1970 til að verja doktorsritgerðina sem ég skrifaði á
spænsku. Þá ríktu neyðarlög í landinu vegna pólitísks óróa og verkfalla –
sem voru bönnuð – og upplausnin var mikil. Það höfðu verið mótmæli í
háskól anum sem hafði verið lokað og ég gat ekki náð í kennarann sem sá um
vörnina og vissi ekki hvað um mig yrði: fengi ég að verja ritgerðina eða ekki?
Ég náði í hann tveimur dögum fyrir vörnina og hann sagðist mundu láta opna
skólann fyrir hana – hvernig hann fór að því veit ég ekki en vörnin fór fram
á tilsettum tíma. Þetta voru óróatímar, það var samt ekki útgöngubann en
mátti handtaka fólk og halda því eins lengi í varðhaldi og lögreglu þóknaðist
og stoppa fólk úti á götu og heimta að það sýndi skilríki. Ástandið bætti ekki