Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 16
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
16 TMM 2015 · 1
taka fram að vegna aldurs og afstöðu tilheyri ég ekki 68-kynslóðinni. Og satt
er það, við unga fólkið upplifðum vissa frelsistilfinningu, vorum sannfærð
um að allt stefndi í átt til frelsis, sem átti þó ekkert skylt við markaðsfrelsi.
Að minnsta kosti var farið að taka meira tillit til ungs fólks og þess sem það
hafði fram að færa en áður hafði verið gert, sem var í takt við þróunina í
öðrum löndum.
Eins og þú hafði ég ekki sérstaka trú á kynslóðum, en hef neyðst til að draga
svolítið í land með það. Ég þykist hafa uppgötvað að maður sé óþægilega
bundinn þeim tíma sem maður mótaðist á, þó svo að reynt sé að fylgjast með
því sem yngra fólk er að gera og hugsa. Þeir sem hafa alist upp á svokölluðum
upplýsingatíma tölvanna sjá veröldina eðlilega í öðru ljósi en ég. Að auki á ég
lífið meira og minna að baki en ekki framundan eins og unga fólkið, og það
setur strik í reikninginn hvað snertir upplifunina á því sem er að gerast hér
og nú. Sem stendur hefur undirstaða margra bókmenntaverka verið ögrunin,
sem er hressandi og ágæt út af fyrir sig, en ögrunin ein og sér nægir samt
ekki til að úr verði list. Fleira þarf til. Um þessar mundir eru að stíga fram
tiltölulega ungir höfundar sem spyrja spurninga og hafa efasemdir um eitt
og annað. Ég finn meiri samhljóm með þeim en hinum.
***
Kristín: Álfrún, viltu segja mér frá bókunum þínum, nokkur orð um
hverja bók, ef við byrjum á Af manna völdum sem gæti hafa komið út núna
í hádeginu; hún er klassík.
Álfrún: Í smásagnasafninu Af manna völdum gekk ég líklega útfrá því
sem ég var að hugsa um og fara frá og yfirgefa. Ég gerði mér grein fyrir að
bernskuminningar staðna, þær verða eins og frosnar myndir og þá hætta
þær að lifa, ég var hrædd um að það myndi gerast – við fleiri minningar – og
reyndist rétt. Minning hættir að lifa með manni. Kannski bjó einhver svona
tilfinning á bakvið bókina og von um að í sögunum myndu minningar halda
áfram að lifa, þó að þær væru látnar ganga í gegnum breytingar bæði hvað
inntak og tilefni varðaði. Þú verður að láta upplifun frá þér á meðan hún er
lifandi fyrir þér.
Kristín: Næst kom út skáldsagan Þel sem fjallar um ungt fólk snemma á
sjöunda áratugnum. Frásagnarhátturinn er frjáls eins og andi hins unga
gefur tilefni til.
Álfrún: Þar var útgangspunkturinn kannski: snillingurinn. Svona voru
margir skólastrákar, dálítið dekraðir og haldnir ofurtrú á sjálfum sér,
nokkuð algeng manngerð hér á landi, þannig lagað séð, á þessum árum
þegar sagan gerist. Þá er undirtónn bókarinnar: hver leikur á hvern, sem er
oft undirtónn í verkum mínum ásamt einsemdinni: menn ná aldrei alveg til
annarra.