Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 118
118 TMM 2015 · 1
Ófeigur Sigurðsson:
Herra forseti, háeðla excellentz, velbornu háæruverðugu dyggðumprýddu
og náðarsamlegustu gestir. Aðrir.
Herra forseti og hæ allir hinir.
Herra forseti, frú Dorrit, Sámur, og aðrir dyggðumprýddir gestir.
Mér hafa lengi þótt auðnir, hraun, sandar og rofabörð veita innsýn í sjálfan
manninn, og stöðu hans í heiminum, að um öræfin liggi gáttin að hjartanu,
sálinni, skáldskapnum, og að gróðurinn og borgarlandslagið sé aðeins yfir-
borðið, siðferðið, húðin, dula dregin yfir sannleikann. Skáldsagan Öræfi er
óður til öræfanna, og ekki bara sveitarinnar, hálendisins og allrar óræktar og
eyðingar eftir náttúruhamfarir, heldur einnig öræfanna hið innra, þar sem
hin eiginlega eyðimerkurganga fer fram, þar sem alltaf er allra veðra von, þar
sem við lendum daglega á hæpnum slóðum.
Þannig hefur mér fundist vera bein tengsl á milli öræfa landsins og undir-
vitundar þjóðarinnar, ef svo má segja, en undirvitundir eru sennilega stygg-
ustu og viðkvæmustu skepnur jarðar, og þeim verður að sýna nærgætni og
aðgát ef reynt er að nálgast þær, skást auðvitað að láta þær bara í friði. Öræfi
reynast því ágætur mælikvarði á geðheilsu þjóðarinnar, sem helst stafar
hætta af framsókn í nafni þjóðmenningar, framkvæmdum, framleiðslu og
öllu sem byrjar á fram-.
Eða hvað er þjóðmenning? Andleg og verkleg menning þjóðar, segir
orðabókin. Það er allt og sumt. Er það þá ekki þjóðmenning að ung kona
varpi sér nakinni fram af bjargi eina óveðursnótt um miðja 18du öld? eða
er það jafnvel þjóðmenningin sjálf sem neyðir hana í slíkan hrylling? Skyldi
þjóðmenning dagsins í dag vera þess megnug að vera slíkur sjálfsskaðari?
Ég hef það stundum á tilfinningunni að dulvitund þjóðarinnar sé flúin
ofan af öræfum alla leið niður í bæ, og skrimti þar við uppsprengt leiguverð
í 101um, í hinum svokölluðu lundabúðum, að þar búi kjarninn í okkur
sjálfum, andleg og verkleg menning, þjóðmenningin, sem er ekki einu
sinni séríslensk lengur heldur internasjónal; sjálfur fer ég alltaf í lundabúðir
erlendis þar sem seldar eru sjálfsmyndir þjóða sem aldrei hafa verið til, og
eftilvill væri hollt fyrir stóru sálina, þjóðarsálina, ef sumir stjórnmálaflokkar
spegluðu sig í þessum búðum og finndu sjálfsmynd sína, héldu þar jafnvel
flokksþing. En nú sigli ég hraðbyri í neikvæðni og slíkt er varla smekklegt á
svoddan gleðistund og varpa mér því útbyrðis í nafni þjóðmenningarinnar,
og ætla að reyna að ná til lands.
Mig langar til að tileinka þessi verðlaun Öræfingum sem opnuðu fyrir
mér dyr sínar að þessari einstöku veröld, með þeirri óþvinguðu gestrisni
sem kennd er við Skaftafellssýslurnar. Þeir Öræfingar gjalda nú fyrir það
með þessari bók. Þegar ég kom þangað í fyrsta sinn ellefu ára gamall var