Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 14
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
14 TMM 2015 · 1
***
Kristín: Hvað meturðu mest í fari manneskju?
Álfrún: Einlægni. Manneskja sem er einlæg hún er ekki að leika hlutverk.
Sem virðist dáldið áberandi nútildags: að vera í hlutverki.
Kristín: Hvað meturðu minnst í fari manneskju?
Álfrún: Náttúrlega klæki og lygar.
Kristín: Hverjir eru kostir þínir?
Álfrún: Ég hef bara satt að segja ekki velt þeim fyrir mér.
Kristín: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Álfrún: Það er nú svo margt, það yrði heljarlangur listi. Ég hef gaman af
mörgu, eins og ég nefndi áðan, vera með fólki, skapa, og njóta þess sem svo-
lítill unaður er að.
Kristín: Hver er hugmynd þín um hamingju?
Álfrún: Ég held að maður geti aðeins verið hamingjusamur yfir einhverju
afmörkuðu en ég veit samt ekki hvað orðið hamingja merkir í raun og veru,
það er hægt að vera hamingjusamur yfir svo mörgu. Gagnkvæm hamingja
er einhvers konar gagnkvæm virðing.
Kristín: Hver er uppáhaldsliturinn þinn og blóm?
Álfrún: Það á ég ekki til. Það get ég ekki sagt þér. Ég er hrifnari af fjöl-
breytileika, ég vil hrífast af mörgu, ekki bara einu, það eru til svo mörg falleg
blóm og hægt að horfa á þau endalaust, sama á við um liti.
***
Kristín: Álfrún, þú kemur með nýjan stíl og byggir sögur þínar af óþekktri
framúrstefnu í íslenskum bókmenntum. Varstu þér meðvituð um stílinn
þinn og hvað hann var frábrugðinn því sem viðgekkst hér?
Álfrún: Að vissu leyti var ég það, án þess að vera sérstaklega upptekin af
því. Mig skipti meira máli að sitja ekki föst í fyrirframgefnu og samþykktu
frásagnarfari. Því fari að svona ætti að segja sögur en helst ekki á annan hátt.
Að skrifa var fyrir mér einskonar leit, að kanna ókunna stigu sem ég hafði
ekki lagt í áður. Öll form og stílbrögð bjóða upp á ýmsa möguleika, en eiga
það sameiginlegt að þeim eru öllum settar skorður. Ég varð ekki svo lítið
undrandi þegar fólk kom að máli við mig, eftir að fyrstu skáldsögur mínar
komu út, og sagðist ekkert botna í mér að vera að skrifa sögur með upphafi,
miðbiki og endi, en síðan sæti ég kófsveitt við að klippa sögurnar í sundur og
líma þær aftur saman. Eins og gefur að skilja vann ég ekki á þann hátt, það
er beinlínis ekki hægt. Sögurnar voru skrifaðar eins og þær voru hugsaðar.