Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 44
G í s l i S i g u r ð s s o n
44 TMM 2015 · 1
Landnámu. Vitað er að slíkar upprunaskýringar voru ritaðar í Landnámu
og langlíklegasta skýringin á því er sú að örnefni og sögur hafi lengi farið
saman. Að það hafi verið fólki tamt að rifja upp og segja sögur af fólki og
atburðum í tengslum við umhverfi sitt, hvernig örnefni á helstu kennileitum
komu til, hvernig landamerki voru skilgreind, hvernig leiðir lágu um landið
sumar og vetur, hvað bæri að varast á sjó og á landi, hvar mætti vænta fiskjar
og reka o. s. frv. Munnlegar sögur eru hvarvetna notaðar í hefðbundnum
munnlegum samfélögum til að kortleggja landið og miðin og himinhvolfið;
frá veraldlegum og raunsæislegum sögum í nærumhverfinu til ævintýralegri
frásagna eftir því sem fjær dregur í tíma og rúmi og loks goðsagna þegar
komið er út fyrir ystu sjónarrrönd og upp á himinhvolfið sem er ávallt og
ævinlega fyrir allra augum og kallar hvarvetna á byggðu bóli á örnefni og
sögur og skýringar á því sem blasir við hinum viti borna og jarðbundna
manni á himninum.
Ekki skáldað útfrá fróðleiksmolum
Sagnalistin og upprunaskýringar örnefna eru ekki uppfinning ritlistarinnar
og því er óeðlilegt að ganga út frá því að höfundar Landnámu séu að skálda
upprunaskýringar á örnefnum, búa til landnámsmenn út frá einu saman
örnefninu. Að því sögðu verður um leið að vera vakandi fyrir því að heim-
ildagildi hinnar munnlegu hefðar um löngu liðinn raunveruleika er jafn
óvíst fyrir því. Hugmyndir manna um fortíðina eru síbreytilegar eftir
aðstæðum, upprunaskýringar um landamerki eru til dæmis líklegar til að
taka breytingum ef jarðir stækka eða minnka; mikils háttar fólk í fortíðinni
ræðst af því hverjir eru mikils háttar í samtíðinni og hafa hag af að halda
minningu forfeðra sinna og formæðra á loft. Það fer algjörlega eftir heim-
ildarmanni hvernig fortíðin lítur út, engar tvær manneskjur hafa sömu sögu
að segja. Ekki fyrr en ritheimildir koma til sögunnar.
Með tilkomu ritheimilda verður í fyrsta skipti mögulegt að varðveita orð-
réttar frásagnir og kvæði á milli kynslóða svo tryggt sé. Slíkur möguleiki er
þó engin ávísun á að það hafi verið gert því eins og sjá má af hinum varð-
veittu Landnámugerðum héldu höfundar þeirra engu að síður áfram þeim
munnlega sið að laga efnið í hendi sér, upphefja sig og sína ætt, hver í sinni
gerð, auka við efni úr eigin ranni en jafnframt að nýta það sem þegar hafði
verið skráð og öðlast þar með yfirsýn um stærra svæði og fleiri fjölskyldu-
hefðir en nokkrum einum manni var mögulegt að öðlast á munnlegu stigi.
Hugmyndin um að geta sagt sögur af öllu Íslandi á einum stað, eins og í
Landnámu, krefst mikillar söfnunar úr ólíkum áttum – sem hefur kallað
á mjög samstillt átak af því tagi sem nú þekkist eingöngu úr stærstu rann-
sóknar- og átaksverkefnum á vegum ríkisvaldhafa sem vilja oft skrásetja alla
heimsbyggðina eins og minnst er árlega í jólaguðspjallinu.
Landnáma er áreiðanleg heimild um þær sögur og hugmyndir sem fólk