Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 61
„ H ú s i n e r u e i n s o g o p i n b ó k “
TMM 2015 · 1 61
Fyrir þá sem hafa fengið nasasjón af kenningum Joseph Campbell um ferð
hetjunnar er þetta kunnuglegt.42 Þetta er hetjusaga sem hefur verið sögð
eftir sömu formúlu svo öldum skiptir og hér fær Guðjón svo að segja sömu
meðferð hjá Jónasi og Logi Geimgengill fær hjá George Lucas tuttugu árum
síðar.43 Að því sögðu kann sú spurning að vakna að hvaða marki þessi
frásögn liggur til grundvallar sögu annarra íslenskra lista- og menntamanna
en hér gefst ekki tóm til að fara í saumana á því.44
Það er óneitanlega athyglisvert að velta því fyrir sér hvort kom á undan
eggið eða hænan, eða með öðrum orðum: Hvort þjóðlegar tilhneigingar og til-
raunir hafi blundað í Guðjóni frá upphafi eða hvort þær hafi komið eftir á og
fyrir tilstuðlan túlkunar Jónasar frá Hriflu. Hitt er víst, að það er enginn sem
leggur sig jafnmikið fram og Jónas við að auglýsa Guðjón og verk hans, í ræðu
og riti, sem afsprengi þjóðar er geymir gildi sín frá gullinni fortíð. Og þegar
leiðir þeirra mætast leggur Guðjón aukinn þunga í leit sína að þjóðlegum stíl.
Hamrastíll: (kald)hamrað landslag og lund
Tvær tilraunir sem Guðjón gerði munu alltaf vera taldar til mikilla viðburða
í íslenskri byggingarlist. Annars vegar er áðurnefnd tilraun hans til þess að
endurvekja, eða bjarga, gamla sveitabæjarstílnum á öld steinsteypunnar.
Almennt er fallist á að tilraunin hafi verið góð og gild, hún kallaði fram viss
þjóðleg blæbrigði en var óhentug þegar upp var staðið – sér í lagi í íslenskri
veðráttu. Árið 1957 er skrifað að það verði ekki „annað sagt en að tilraun
Guðjóns Samúelssonar með að bjarga gamla sveitabæjarstílnum inn á öld
steinsteypunnar hafi misheppnast. Það skildi hann bezt sjálfur, og leitaði
hugur hans nú inn á aðrar brautir“.45 Gera má ráð fyrir að hinar brautirnar
hafi tengst hinni megintilraun hans, þar sem hann leitaði fyrirmynda úr
íslenskri náttúru sem hann gat steypt í mót sín í stað þess að særa upp gamla
drauga í formi burstabæja.46
Það má segja að það birtist vísir að einbeittri hugsun þessa efnis í grein sem
Guðjón skrifar í Tímarit V.F.Í. í upphafi fjórða áratugarins. Þar rekur hann
meðal annars byggingarsögu Íslands allt aftur til landnámsmanna og lýsir
þeim vandkvæðum sem hlutu að fylgja húsagerð þeirra tíma sökum þess
hve byggingarefni hríðversnaði þegar hingað var komið. Ljósið í myrkrinu
mun þó hafa verið að kringumstæður hafi von bráðar mótað alla íslenska
húsagerð og þessir „íslensku „bæir“ litu vel út og voru eins og sprottnir úr
íslenska jarðveginum“.47 Hér ber að veita orðunum „sprottnir úr íslenska
jarðveginum“ sérstaka athygli.48 Guðjón er sýnilega enn á hnotskógum eftir
einhverri leið þar sem hann getur steypt þjóðarsálina í varanlegt efni því
hann segir ekkert til sem kalla megi „þjóðlegan íslenskan byggingarstíl,
nema ef vera skyldi gömlu burstabæirnir – Steinsteypan er of ný í þessu landi
til þess að búast megi við, að sérkennilegur stíll úr þessu efni hafi skapast, er
sé í samræmi við íslenskt landslag og íslenska þjóðarlund“.49