Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 70
K j a r t a n M á r Ó m a r s s o n
70 TMM 2015 · 1
greindi hann eða séríslenskar framfarir í byggingarlist. Það verður að
taka tillit til þess hvaða hlutverki byggingar hans áttu að þjóna – hvaða
væntingum þær voru bundnar. Svo aðeins séu tekin tvö dæmi má nefna að
Háskólinn og Þjóðleikhúsið voru fyrir sitt leyti hluti af því ferli stjórnvalda –
og þar með talið menningarvita þess tíma – að mennta og þroska íslenskan
almenning. Þessar stofnanir áttu leynt og ljóst að vera uppeldisstöðvar –
stuðla að mannrækt. Til dæmis virðist aðstandendum háskólans ekki hafa
nægt að hlúa að andlegu heilbrigði nemenda sinna heldur létu þeir líkamlegt
ástand þeirra sig varða að auki. Í grein sem birtist í Vísi 1937, í tilefni af
aldarfjórðungsafmæli skólans, segir: „Vert er að minnast á, að komið hefir
verið á í Háskólanum nákvæmu eftirliti með heilsufari stúdenta, og stöndum
vér í þessu efni framar en sumar nágrannaþjóðirnar“.88 Orðalagið „nákvæmt
eftirlit“ segir sína sögu.
Sömu sögu er að segja af Þjóðleikhúsinu.
Leikhúsinu var ekki einungis ætlað að vera til skemmtunar heldur var til-
ætlað uppeldishlutverk þess þegar ljóst í upphafsræðu Guðlaugs Rósinkranz
þjóðleikhússtjóra.89 Hann dregur þar beina samlíkingu milli efnislegs útlits
byggingarinnar og þeirra óáþreifanlegu eiginleika sem hún á að búa yfir
þegar hann segir að Þjóðleikhúsið muni „standa eins og óbifanlegt bjarg í
ölduróti andlegra og efnislegra umhleypinga í þjóðfélaginu, svo sem þessi
trausta og fagra bygging gnæfir nú yfir umhverfi sitt“.90 Húsið sjálft er
þannig birtingarmynd þeirra grunngilda sem eiga að standa af sér storm
and legra umhleypinga í þjóðfélaginu.
Niðurlag
Hús eru oft birtingarmynd óáþreifanlegra gilda og fyrirbæra – þjóðar, sjálf-
stæðis og frelsis, svo dæmi sé tekið. Hvað er það við byggingar Guðjóns
sem gerði þær „þjóðlegar“? Hvorki byggingar né þjóðir búa yfir innbyggðu
eðli, heldur eru hugmyndir okkar um slíkt síbreytilegar eftir því hvernig
vindurinn blæs. Svarið hlýtur að vera að það er ekkert sem gerir bygg-
ingarnar þjóðlegar heldur séu þjóðlegar skilgreiningar sprottnar úr stærri
umræðu sem á rætur að rekja til evrópskrar hugmyndar á 19. öld. Verk Guð-
jóns eru sprottin upp úr alþjóðlegum jarðvegi þjóðernishyggju í Evrópu en
ekki sköpunarverk eins manns norður á hjara veraldar.
Í bók Sigríðar Matthíasdóttur, Hinn sanni Íslendingur, bendir hún á að
það hafi verið þjóðernissinnaðir menntamenn sem gegndu lykilhlutverki
í þjóðbyggingu smærri þjóða innan Evrópu. Hún bendir á að í skrifum
ástralska fræðimannsins John Hutchinson megi finna vísbendingar um
að slíka menntamenn megi „skoða sem höfunda pólitískra goðsagna
fremur en vísindamenn, því að meginverkefni þeirra eða hlutverk hafi
verið að leggja þjóðum sínum til nothæfa, nútímalega sjálfsmynd með því
að umskrifa þjóðina“.91 Þessir menntamenn hafi með rannsóknum sínum