Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 112
Þ o r s t e i n n A n t o n s s o n
112 TMM 2015 · 1
dóttirin, Oddný, reyndist henni meðfærilegri en sú eldri. Ásta hló að móður
sinni þegar hún boðaði henni trú sína og dóttirin lagði til á móti veraldlegri
lífsskilning, gleði og hamingjuleit. Móðirin leit á hana sem refsingu fyrir
vanrækslusyndir sínar við guð. Dóttirin reyndist á fullorðinsárum sínum
sérlega uppivöðslusöm gagnvart hinum trúarlegu lífsgildum móður sinnar,
bæði í orði og verki. Þóranna var fædd 1891, hún lést 1984. Í blaði aðventista,
Bræðabandinu, 2. tbl. 1985 segir prestur í kveðjuorðum: „Systir Þóranna
gerðist meðlimur aðventistasafnaðarins 1921. Má með réttu segja að um
söfnuðinn, starf hans og velferð, hafi hugur hennar snúist öllu öðru fremur.“
Þóranna dvaldi á Hrafnistu í Reykjavík frá 1968 uns hún lést.
Að öllu saman teknu var Ásta því líkt sem kjörin til að verða ímynd
bóhemslifnaðar, lífsnautnastefnu, sem setti sterkan svip á líferni skáldakyn-
slóðar fyrstu áratugina eftir seinni heimstyrjöldina og stofnun lýðræðis
í landinu. Svo bráðger krakki sem Ásta vissulega var og þegar lengra leið
hneigð til uppreisnar gegn viðteknum venjum.
Sögur Ástu einkennir með öðru lýsingar á skaðræðismönnum á heimili og
í öðrum samskiptum, jafnvel dýra- og barnaníðingum sem jafnframt veit-
ast að sambýliskonum sínum lifandi og látnum. Ásta var ekki baráttukona
gegn karlveldi í þjóðfélaginu í pólitískum skilningi; í þeim skilningi sem sett
hefur svip á bókmenntagagnrýni og skáldsagnaskrif frá því um og upp úr
1990.9 Ámælum hennar, hafi þau einhver verið, var beint gegn kjörum sem
engin sjáanleg leið var til að færa á betri veg. Stef þess beygða og bljúga, sem
öðrum þræði einkennir sögur hennar, er harmsögulegt innlegg í knappa
frásögn. Sakleysi, blint og vanmáttugt, hlýtur að líða, samkvæmt sögunum,
ekki bara fyrir fávísi karla eða kvenna – eins og pólitísk ranghugsun lætur
títt að liggja – heldur fyrir hreinan og beinan fáráðshátt manna. Ósjálfræði
þeirra. Og enginn er undanskilinn, hvort heldur væri fyrir kynferðið eða
annað. Í stað kynjamunar tekst Ásta á við þá ráðgátu sem bæði innlendir
og erlendir skáldsagnahöfundar, sem kenndu til í stormum sinnar tíðar,
létu ekki framhjá sér fara á hennar tíð, heldur reyndu að finna afhjúpandi
orð: spurninguna um hvaða ráðum beitt verði gegn bágum tilvistarkjörum
mannskepnunnar í guðlausum heimi. Æviglímu lífveru sem er klofin niður
í rót fyrir átök andstæðra afla sem vart verði fundin heiti yfir. Skildi ekki
það sama hafa hrjáð manninn Markús Ívarsson, alías Sigurð Jónsson, á
hrakningi hans um landið?
Tilvitnanir í Ævisögu séra Árna prófasts Þórarinssonar eru í útgáfu MM frá árunum
1969–70, síðara bindi, en tilvitnanir í sögu Ástu er í: Ásta Sigurðardóttir: Sögur og
ljóð, Forlagið 2009.