Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 39
TMM 2015 · 1 39
Gísli Sigurðsson
Getur Landnáma líka verið
heimild um landnámið?
Þegar Ísland tekur þátt í úrslitakeppninni á Evrópumeistaramótinu í fornum
menningarafrekum – eftir að hafa slegið hinar Norðurlandaþjóðirnar út
í undanrásunum – og spilar út myndlistarframlagi sínu, skreyttum upp-
hafsstöfum í lúðum handritum og slitinni handbók fyrir teiknara, draga
hinar þjóðirnar fram hellamálverkin, höggmyndalistina, kirkjulistina alla,
freskurnar, trúarritin, Leonardo da Vinci … Og Ísland er úr leik. Í tónlist-
inni nefna fulltrúar Íslands að hér hafi verið spilað á gígjur og flautur,
jafnvel stigið dansspor – en nei, það er enginn Bach eða Mozart, því miður.
Loks kemur að bókmenntunum og Hómer er lagður á borðið, Óvíð, Dante,
Chaucer, Cervantes … Fulltrúar Íslands geta þá beðið rólegir með sitt
framlag og spurt, án þess að bregða svip, hvort það sé eitthvað fleira. Þegar
svo reynist ekki vera má jafna þetta allt með Eddunum báðum, Egils sögu,
Laxdælu, Njálu og Grettlu. En ég spái Íslandi sigri með lokaútspilinu sem
mun tryggja sæti í úrslitunum á sjálfu heimsmeistaramótinu og jafnvel
stæði á verðlaunapalli þar: Landnámu. Ekkert annað land getur teflt fram
bók sem segir sögur af fyrsta landnámi mannsins á landsvæði á borð við
Ísland, þekkir nöfn þeirra einstaklinga sem byggðu þar fyrst, brutu land til
ræktunar og náðu á því tökum með örnefnum og frásögnum.
Sögur um fyrsta fund manns og náttúru
Á tólftu og þrettándu öld voru skrifaðar sögur um landnám Íslands og
mannlíf í landinu frá níundu öld og fram yfir kristnitöku árið 1000. Þetta eru
sögur um landnámskonur og -menn frá Noregi og Bretlandseyjum, hvaðan
þau voru ættuð, hvar þau settust að og hver væru helstu afkomendur þeirra.
Stundum er greint frá ástæðum þess að fólk tók sig upp úr heimahögunum.
Minningar og frásagnir koma úr öllum landshornum og lýsa örnefnum sem
gefin voru við fyrsta fund manns og villtrar náttúru, segja frá siglingum
til annarra landa, leiðum á milli staða innanlands og viðleitni fólks til að
skipuleggja hið nýja samfélag með lögum og þinghaldi þar sem reynt er að