Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 57
„ H ú s i n e r u e i n s o g o p i n b ó k “
TMM 2015 · 1 57
í Reykholti sem er dagsett 1920 en sú hugmynd varð aldrei að veruleika.
Verkamannabústaðirnir, hin svokölluðu bankahús á Framnesvegi, eru
byggðir í burstabæjarstíl 1921, og einnig eru til teikningar af Sundhöllinni
eins og Guðjón sá hana fyrst fyrir sér, sem nokkurs konar þriggjaburstabæ.
„Eftir uppdrættinum eru laugarnar þrjár, og bygt yfir hverja fyrir sig, svo
að byggingin lítur tilsýndar út sem íslenzkur bóndabær“ en það var aldrei
byggt eftir þeim teikningum heldur.14 Guðjón var ötull við gerð steinsteyptra
burstabæja á þriðja áratugnum – sér í lagi utan höfuðstaðarins. Þó eru ekki
allir sammála um hversu víðtækar þessar tilraunir hafi verið, því eins og oft
vill verða sjá sumir blóm þar sem aðrir rífa upp arfa. Jónas Jónsson bendir
aftur til einbýlishúsa á Skólavörðustíg (c. 1923) og Sóleyjargötu (c. 1925)
og telur að þau „hafi burstir, er benda til þess, er síðar kom frá Guðjóni, er
hann reyndi að nota sveitabæjarstílinn gamla í nútímabyggingum“.15 Og svo
ýjar hann að því sama um Austurstræti 7 sem Guðjón byggði nýkominn
heim frá Kaupmannahöfn 1916: „Þar sem húsameistari var þá þegar farinn
að líta hýru auga til sveitabæjarstílsins, voru á þessu húsi tvær burstir og
í þríhyrning. Ofan við þessa skemmuglugga var landbáran í barnaleik við
fjöru höfuðstaðarins“.16 Hins vegar hefur Haraldur Helgason arkitekt bent
á að ekki sé mikill munur á gaflhúsum, sem hafa alls staðar verið gerð, og
stílfærðum burstabyggingum, og þótt sjá megi áhrif burstabæja í verkum
Guðjóns þýði það ekki endilega að lagt hafi verið upp með það. Það sé því
vafasamt að ákvarða í eitt skipti fyrir öll hvar upphafið liggi og hvaða verk
falli undir burstabæjarstíl.17
Hús sem hugmynd
Á fyrstu áratugum 20. aldarinnar lá hugmyndin um endurreisn hins forna
þjóðveldis eins og rauður þráður um alla umræðu um íslenska sjálfstæðis-
baráttu.18 Einn þáttur hennar var að treysta eigin tilverurétt með áherslu
á þjóðleg einkenni og öldutoppa íslenskrar sögu. En að handritunum
undanskildum höfðu Íslendingar ekki af stórum menningarsögulegum
minnismerkjum að státa og úr því þurfti að bæta. Þegar styttan af Ingólfi
Arnarsyni var reist árið 1924 hafði hún verið til umræðu síðan 1907. Þegar
í upphafi var rætt um að styttan ætti að þjóna öðru hlutverki en því eina
að vera minnisvarði um fyrsta íslenska landnámsmanninn; hún átti líka
að vera táknmynd íslensks þjóðernis.19 Listaverk getur nefnilega falið í sér
áróður. Innihald þess getur höfðað til tilfinninga og hvatt til aðgerða og
byggingarlist er ekki frábrugðin listaverki að þessu leyti þar sem hún getur
einnig haft þennan áróðursþátt innbyggðan.20
Stjórnmálamönnum var mikið í mun að sanna tilverurétt sinn með ein-
hverju áþreifanlegu og því má ætla að þeir hafi gripið til sama ráðs og margir
trúarbragðaleiðtogar heimsins, sem hafa nýtt sér byggingarlistina „markvisst
til þess að framkalla hugarástand sem þeir haf[a] talið eftirsóknarvert“.21