Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 89
H a l l g r í m u r h o r f i r á a l t a r i s t ö f l u H ó l a d ó m k i r k j u
TMM 2015 · 1 89
dómkirkjunnar sem hann varð nákunnugur. Þekking á píslarsögunni og
krossfestingunni urðu eðlilegur hluti heimanfylgju hans.
Formleg skólaganga Hallgríms á Hólum varð að líkindum ekki löng eftir
því sem sögur herma; „hann missti skólann“, sem þýðir að hann var rekinn.
En sálmarnir og söngurinn sem hann kynntist á biskupsstólnum, mynd-
listin, prentverkið og bókagerðin, voru hluti þess lærdóms sem hann hafði
með sér út í heim á unglingsaldri. Ef til vill hafði hann þá þegar misst móður
sína. Svo lítið fer fyrir Solveigu móður Hallgríms í heimildum að vel má ætla
að hún hafi látist ung. Það var hlutskipti svo margra kvenna fyrr á öldum
að deyja af barnsförum. Fyrr en 1620 eða 1621 hefur hún þó ekki dáið, því
annað hvort árið fæddist Guðríður, litla systir Hallgríms, eins og lesa má út
úr Manntalinu 1703. Skráningin í Höfðastrandarhreppi fór fram í lok mars
og þá bjó Guðríður Pétursdóttir hjá dóttur sinni á Miklabæ í Óslandshlíð og
er sögð hafa tvo um áttrætt. Guðríður er ættmóðir Jónasar Hallgrímssonar.
Ég hef ályktað að Hallgrímur, hinn mikli sérfræðingur í þjáningunni, hafi
kynnst henni snemma af eigin raun, samhliða píslarsögu Jesú. Í Heimanfylgju
er faðir hans lengst af ekkjumaður á Hólum og einn að basla við uppeldið á
syni sínum. Það gengur á ýmsu í samskiptum þeirra feðga í því mikla til-
finningaróti sem ætlaður móður- og konumissirinn olli þeim, auk þess sem
stórtíðindi urðu á staðnum, sem settu allt líf á Hólum úr skorðum.
Stórtíðindaár
Hinn þriðja í Hvítasunnu 1624 fékk Guðbrandur Þorláksson biskup
heilablóðfall og lagðist veikur, áttatíu og tveggja ára að aldri. Í kjölfarið upp-
hófst valdabarátta meðal erfingjanna, þar sem Halldóra dóttir hans hafði
sigur. Þótt Guðbrandur hefði lamast í helmingi líkamans og misst málið
að mestu, missti hann hvorki fulla rænu, né heldur stjórnsemina. Hann
lét loka prentsmiðjunni, þar sem hann hafði prentað Jónsbók og Biblíuna,
Grallarann, Sálmabókina, Vísnabókina og um 100 aðrar bækur. Prenttól-
unum var pakkað niður, svo ekkert kæmist út á þrykk sem hann gæti ekki
haft umsjón með. Í Heimanfylgju verður sá atburður sem Paradísarmissir
fyrir bókhneigðan 10 ára drenginn. Hrun dómkirkjunnar í nóvember sama
ár er þegar nefnt sem kallaði á mikil umsvif við rústabjörgun, hreinsunar-
störf og enduruppbyggingu næstu misseri. Þá var sá atburður í nálægri sveit,
Svarfaðardal, handan Heljardalsheiðar, að maður var brenndur á báli fyrir
galdra 1625. Það var fyrsta galdrabrennan á Íslandi á 17. öld og óhug setti
að fólki. Um það leyti sem kirkjan var fullbyggð lést Guðbrandur úr sótt
20. júlí 1627. Kosning um eftirmann hans fór fram í skugga válegra tíðinda
sunnan úr Grindavík, af Austfjörðum og Vestmannaeyjum, sem hefur verið
kallað Tyrkjaránið. Það kostaði tugi mannslífa og brottnám tæplega 400
Íslendinga til framandi slóða. Sigur í biskupskosningunni hafði dóttursonur
Guðbrands, Þorlákur Skúlason, með fulltingi móðursystur sinnar Halldóru.