Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 116
116 TMM 2015 · 1
Bryndís Björgvinsdóttir:
Forseti Íslands og aðrir gestir,
Takk fyrir verðlaunin.
Ég verð að viðurkenna að ég er glöð og hissa í senn – en ég get ekki sagt að
ég hafi búist við því að fá þessi verðlaun fyrir ritstörf strax. Ekki fyrir sextugt
og hvað þá fimmtugt. Ég er enn á þeim stað í mínum ritferli að ég er oft efins
og jafnvel ekki viss um að ég geti skrifað bækur yfirhöfuð. Jú, ég gat vissulega
skrifað þessa bók – en hef ekki hugmynd hvort þær verði fleiri.
Ég var ansi lengi með þessa bók í maganum, eins og sagt er, án þess að hafa
hugmynd um að útkoman yrði eins og varð, en mig langaði lengi til að skrifa
sögu innblásna af frænda og frænku sem ég kynntist aldrei en hafa engu að
síður verið mér hugstæð.
Hann var náttúrubarn, uppfinningamaður, góðmenni, einsetumaður og
skrifaðist á við aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Dag Hammarskjöld, um
friðar mál, sjálfbæra orku, lífræna ræktun og fleiri hugðarefni. Og þó: Við
vitum ekki nákvæmlega um hvað hann skrifaði því eftir að hann frændi
– Ingimar – drukknaði voru dagbækur hans og bréf sett í haug og brennd.
Hún frænka – Hallbera – var kosin ungfrú Hafnarfjörður í Bæjarbíói,
þótti gustmikil, kjaftfor jafnvel, smart og sniðug. Hún fór sínar eigin leiðir
eins og Ingimar en á ólíkan hátt og endaði ævina í Ohio í Bandaríkjunum
þar sem hún lést árið 1993 þá orðin Vottur Jehóva. Og þó: Sagan segir að hún
hafi farið með íslenskar klámvísur á samkomum vottanna, á íslensku – og
þeir hafi bara sagt: Amen og hallelúja.
Þessar tvær persónur höfðu lengi haft undarleg áhrif á mig. Þær virtust
mér svo glaðværar og gáfaðar í senn. Flippaðar (eins og sagt er í grunn-
skólum landsins) en um leið voru örlög þeirra undarleg og áhugaverð, jafnvel
dapurleg líka – og Ingimar var mörgum harmdauði þegar hann dó af slys-
förum, drukknaði þar sem hann réri sínum árabát í vondu veðri. Og velti
ég þá gjarnan fyrir mér: Af hverju fór hann út á báti í slíku veðri? Var það
náttúrubarnið sem réði för, eða forvitni vísindamannsins? Eða gott hjartalag
– hafði hann kannski gefið einhverjum loforð sem honum fannst hann verða
að standa við?
Það voru spurningar eins og þessar sem urðu til þess að mig langaði til
að skrifa sögu innblásna af Ingimar. En ekkert gekk. Ég átti erfitt með að
ímynda mér að ég væri einsetumaður og uppfinningamaður í Hafnarfirði
um miðja síðustu öld. Hjólin tóku hinsvegar að snúast þegar ég tók að skrifa
unglingabók um ástir og átök í tíundabekk rétt fyrir árið 2000 (sem stóð mér
mun nær). Og þá sá ég allt í einu að ég gæti fléttað inn í hana sögu innblásna
bæði af Ingimar og Hallberu.
Þess vegna má segja að Hafnfirðingabrandarinn fjalli um tvær kynslóðir
Hafnfirðinga. Og þess vegna er bókin líka svona þykk.
Mig langar til að þakka Höskuldi og Fróða fyrir allan stuðninginn en