Náttúrufræðingurinn - 2020, Síða 40
Náttúrufræðingurinn
40
mótun stefnu um umgengni og nýtingu
og vernd þeirra margbrotnu gæða sem í
vistkerfi vatnanna felast. Hér er vísað til
framlags Péturs á sviði náttúruverndar
á Íslandi, sem verður seint fullþakkað.
Í kjölfar rannsókna á Mývatni var
vatnasvið Mývatns friðað með lögum
1974 (nr. 36/1974) og átti Pétur þar
mikinn þátt því að rannsóknir hans og
samstarfsmanna hans voru grundvöllur
að lagasetningunni. Þarna sýndi sig hve
framsýnn Pétur er. Hann sá til þess að
allt svæðið sem hefur áhrif á vistfræði
vatnsins var friðlýst, og það er einmitt
þessi heildarsýn á náttúrufyrirbrigði og
umgjörð þeirra sem nú er lögð áhersla
á í mörgum ríkjum, og endurspeglast
meðal annars í Vatnatilskipun Evrópu.
Þó að þinghelgi Þingvalla hafi verið
friðuð árið 1928 til að halda skipulagi
Alþingishátíðarinnar í föstum skorðum,
þá var og er Pétur enn ötull talsmaður
þess að stækka þjóðgarðinn og friðlýsa
Þingvallavatn og allt vatnasvið þess. Á
grundvelli þekkingarsköpunar Péturs
og fyrir atbeina hans má þakka honum
að verulegu leyti setningu nýrra laga um
þjóðgarðinn á Þingvöllum (nr. 47/2004)
og laga um verndun Þingvallavatns og
vatnasviðs þess (nr. 85/2005). Í 4. grein
laganna um þjóðgarðinn er fjallað sér-
staklega um verndun Þingvallavatns,
þ.e. þess hluta vatnsins sem er innan
marka þjóðgarðsins. Þar segir að innan
þjóðgarðsins sé „óheimilt að gera
nokkuð það sem getur spillt eða mengað
vatn þar, bæði vatn á yfirborði og grunn-
vatn“. Ennfremur: „Vernda skal lífríki
Þingvallavatns og gæta þess að raska
ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum
bleikjuafbrigða og urriðastofna sem
nú lifa í vatninu.“ Þá er Þingvallanefnd
„heimilt að setja sérstakar reglur til að
framfylgja þessum ákvæðum um vatns-
vernd innan þjóðgarðsins“. Tilgreint
er um heimildarákvæði fyrir setningu
sérstakra reglna í 7. grein laganna að
þau geti átt við í tengslum við meðferð
spilliefna, frárennsli og flutning á meng-
andi efnum innan þjóðgarðsins.
Líkt og í lögunum um þjóðgarðinn er
í lögunum um verndun Þingvallavatns
og vatnasviðsins, sem og í tilheyrandi
reglugerð (650/2006), að finna ákvæði
sem augljóslega eru ættuð beint úr ranni
Péturs. Skýr dæmi um þetta er að finna
í 5. og 18. grein reglugerðarinnar um
framkvæmd verndunar vatnasviðs og
lífríkis Þingvallavatns. Í 5. grein, sem er
eins konar lykilgrein að verndun vatns-
ins, er Þingvallavatn og vatn á verndar-
svæðinu skilgreint sem „viðkvæmur
viðtaki“ og tiltekið að það skuli falla í
„flokk A sem ósnortið vatn, sbr. reglu-
gerð um varnir gegn mengun vatns“
(þ.e. nr. 796/1999). Þá segir í 18. grein
að Heilbrigðisnefnd Suðurlands skuli
gera grein fyrir flokkun Þingvallavatns
í samræmi við reglugerð nr. 796/1999
miðað við fyrirliggjandi gögn og þar
er tekið fram, sem er eftirtektarvert,
að „Þingvallavatn telst viðkvæmt fyrir
köfnunarefnismengun, sbr. reglugerð
um varnir gegn mengun vatns af völdum
köfnunarefnissambanda frá landbúnaði
Hér stendur Pétur á svölum eins af húsunum sem hýstu Vatnalíffræðistofnun Hafnarháskóla við Helsingørsgade í Hillerød. Þar hafði stofnunin
aðsetur í meira en 100 ár, frá 1908 til 2013 þegar hún var flutt til Kaupmannahafnar. Pétur stýrði stofnuninni á árunum 1977–90. Útsýnið er ekki
af verri endanum, með Friðriksborgarhöll og Slotsøen í bakgrunni.